Staðlar fyrir mannafla á lögreglustöðvum

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 13:44:06 (1204)

1999-11-10 13:44:06# 125. lþ. 21.2 fundur 125. mál: #A staðlar fyrir mannafla á lögreglustöðvum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir þátttöku í umræðunni. Ég fagna sérstaklega svari hæstv. dómsmrh. og tek undir með ráðherra að meðaltöl segja ekki alla hluti og ég tel það vera athyglisvert að hæstv. ráðherra skuli hafa lýst því yfir að hún muni beita sér fyrir að einstök sýslumannsembætti verði skoðuð með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. Ég fagna því sérstaklega og ítreka það sem ég sagði í byrjun að samfélagið hefur verið að breytast og samfélagið kallar á aukna löggæslu. Við þekkjum það úr fréttum að borgarar eru ekki hultir, sérstaklega um helgar að kvöldlagi í miðbæ höfuðborgarinnar og jafnvel víðar í stærri sveitarfélögum. Við þekkjum jafnframt að fíkniefni eru í sókn og þar virðast sölumenn dauðans oftar en ekki vera skrefinu á undan löggæslumönnum. Við þekkjum fregnir af innbrotum í bíla, íbúðarhús, sumarhús eða fyrirtæki. Fólk óttast sem sagt um líf sitt og eignir.

Þess vegna má í rauninni segja að öryggi er það sem þegnar landsins eiga skilið og vilja fá og til þess er lögreglan. Ég fagna því yfirlýsingu hæstv. ráðherra að taka þessi mál til skoðunar, einkum með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. Öryggi borgaranna kallar á það.