Staðlar fyrir mannafla á lögreglustöðvum

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 13:45:56 (1205)

1999-11-10 13:45:56# 125. lþ. 21.2 fundur 125. mál: #A staðlar fyrir mannafla á lögreglustöðvum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ég tel að lögreglan hafi almennt staðið sig mjög vel. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að þeir hafa staðið sig sérstaklega vel, ekki síst í þeim miklu fíkniefnamálum sem hafa verið til umræðu upp á síðkastið.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til þess að vara við því að fullyrt sé að fólk óttist um líf sitt og eignir. Ég held að það sé mjög ofmælt. Ég held að Íslendingar telji almennt að öryggi þeirra sé vel borgið í höndum hinnar íslensku lögreglu.

Varðandi athugasemd sem fram kom áðan frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni þá er endurskipulagning umdæma til skoðunar og þeirri skoðun verður lokið innan tíðar. Það er alveg rétt að lögreglulið eiga að geta unnið saman og vafalaust er misgóð nýting á þeim á sumum stöðum á landinu.

Ég vil líka fá að nota þetta tækifæri til þess að minna á að töluverð fjölgun hefur orðið í lögreglunni á síðustu árum. Þannig hefur lögreglumönnum fjölgað um rúmlega 60 síðan árið 1985 og þeir eru nú 638 talsins. Bætt löggæsla er þó ekki alfarið háð fjölda lögreglumanna heldur og bættum vinnubrögðum og betra skipulagi lögreglu. Dómsmrn. og undirstofnanir þess munu hér eftir sem hingað til leita allra leiða til að efla löggæslu og tryggja þar með öryggi borgaranna eftir því sem framast er unnt.