Staðlar fyrir lögreglubifreiðir

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 13:48:04 (1206)

1999-11-10 13:48:04# 125. lþ. 21.3 fundur 127. mál: #A staðlar fyrir lögreglubifreiðir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Hér hefur þegar við síðustu fyrirspurn nokkuð verið rætt um starf lögreglu og öryggi borgaranna og ég tek undir með hæstv. dómsmrh. að lögreglan hefur við ríkjandi aðstæður staðið sig afskaplega vel. En mannafli einn og sér er ekki nægur við starfrækslu lögregluembætta. Lögreglan þarf búnað til þess að sinna starfi sínu og skyldum. Við erum fámenn þjóð í stóru landi og umdæmi einstakra lögregluembætta eru afskaplega umfangsmikil. Til þess að komast yfir umdæmi sín þarf lögreglan á bifreiðum að halda og það skiptir máli hvernig bifreiðir lögreglan hefur til afnota. Eðli málsins samkvæmt þarf lögregla oftast að komast fljótt og greitt í útkall. Þar kann að skilja á milli lífs og dauða. Við slíkar aðstæður er lögreglumönnum oft hætta búin og jafnvel fólki á götum úti. Því er rökrétt að gera ýtrustu kröfur um öryggisbúnað og gæði lögreglubifreiða. Það snertir einfaldlega öryggi lögreglumanna að störfum og þegna landsins.

Því miður er málum ekki alveg svo farið. Í sumum tilvikum er lögregluembættum boðið upp á svo hraklegar bíltíkur að engan veginn getur talist ásættanlegt. Veit ég dæmi þess að jafnvel bifreiðaverkstæði hafi neitað að lappa upp á úr sér gengnar lögreglubifreiðir og ekki viljað taka ábyrgð á eða halda höktandi lögreglubifreið í umferð. Þarna er alvarleg brotalöm á öryggi borgaranna og lífi lögreglumanna jafnvel stefnt í hættu.

Því spyr ég hæstv. dómsmrh. hvort til séu staðlar um lágmarksbúnað fyrir lögreglubifreiðir.