Tannvernd barna og unglinga

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 13:58:22 (1213)

1999-11-10 13:58:22# 125. lþ. 21.4 fundur 130. mál: #A tannvernd barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[13:58]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Íslendingar verja hátt á fjórða milljarð kr. til tannheilbrigðismála. Árið 1996 skiptist kostnaðarhlutdeildin á þann veg að 856 milljónir voru greiddar úr almannasjóðum en 2.412 milljónir voru greiddar af notendum beint, 70% á móti 30%. Mjög hafði sigið á ógæfuhliðina í upphafi þessa áratugar þegar kostnaðarhlutdeild notenda, aldraðra og öryrkja og einnig barna, var aukin. Börn og unglingar undir 16 ára aldri höfðu reyndar fengið allan tannlæknakostnað sinn endurgreiddan en á árunum 1992 og 1993 var þessi endurgreiðsla færð í áföngum niður í 75%.

Þessu var harðlega mótmælt enda kom á daginn í skýrslu sem landlæknisembættið birti árið 1997 að tekjulágt fólk var farið að veigra sér við að leita til tannlæknis af fjárhags\-ástæðum. Á þessu ári var gerð sú jákvæða breyting á stuðningi við unglinga að viðmiðunaraldursmörkin voru færð upp í 17 ár. Eftir sem áður er greiðsluhlutfallið 75%. Þetta var þó mjög mikilvægt spor í rétta átt.

[14:00]

Ekki er síður mikilvægt að huga að forvarnastarfi á meðal barna og unglinga en endurgreiðsluhlutfallinu. Forvarnastarfið skiptir máli fyrir heilsu og líðan viðkomandi einstaklinga og peningalega er hér um stórmál að ræða. Óumdeilt er að vel heppnaðar forvarnir á þessu sviði geta sparað háar fjárupphæðir. Ég hef sem aðrir fylgst með rökræðum sérfræðinga um þetta efni. Það sem mér finnst standa upp úr er að á undanförnum árum hefur þokast í rétta átt. Mun að hluta mega rekja það til bættrar tannhirðu, þar á meðal til notkunar á flúortannkremi og sérstakrar flúormeðhöndlunar. Samkvæmt athugunum voru 2,2 tennur skemmdar að meðaltali í 12 ára norrænu barni --- að Íslendingum undanskildum --- árið 1990, en 4,1 tönn í íslenska barninu. Upp úr miðjum áratugnum var þetta hlutfall orðið svipað hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum eða um 1,5 skemmd tönn að meðaltali.

En hvar eru þá skemmdu tennurnar? Margt bendir til að þær sé að finna í þeim hópi sem ekki sinnir nægilega tannhirðu eða er með veikar tennur og hefur ekki aðgang að forvörnum, t.d. sérstakri flúormeðferð. Að mínum dómi þarf að einhenda sér í að finna þennan hóp og veita honum meðferð.

Eftir að einkatannlæknastofur fóru að leysa skólatannlæknastofur af hólmi virðist tilhneigingin vera sú að vaxandi hópur ungmenna fari hvorki til einkalæknis né til skólatannlæknis. Ekki eru til óyggjandi tölur um hve mörg börn hér er um að ræða en varfærin tilgáta væri um 5%. Ef sú tilgáta stæðist væri um að ræða 2.500 börn og unglinga á skólaskyldualdri sem aldrei færu til tannlæknis. Hugsanlegt er að sum þessara barna leiti ekki læknis af peningaástæðum, önnur vegna þess að enginn er til að veita þeim það aðhald sem skólatannlæknastofurnar gerðu.

Af þessum sökum er nauðsynlegt að spyrja hvort áform séu uppi um að styrkja forvarnastarf í skólunum að nýju með starfi skólatannlækna, tannfræðinga eða tanntækna. Ef svo er, stendur þá til að færa slíkt starf út fyrir höfuðborgarsvæðið? Þetta er nánari útlistun á þeirri fyrirspurn sem ég setti fram skriflega:

,,Hvaða áform eru uppi varðandi forvarnastarf til að stuðla að góðri tannheilsu barna og unglinga á grunnskólaaldri?``