Tannvernd barna og unglinga

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:01:54 (1214)

1999-11-10 14:01:54# 125. lþ. 21.4 fundur 130. mál: #A tannvernd barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir þessa fyrirspurn. Hann spyr:

,,Hvaða áform eru uppi varðandi forvarnastarf til að stuðla að góðri tannheilsu barna og unglinga á grunnskólaaldri?``

Ég veit að fyrirspyrjanda er mikil alvara þegar hann spyr um þetta mál, enda spyr hann bæði skriflega og munnlega.

Almennt má segja að forvarnir barna og ungmenna séu í góðu lagi hér á landi. Til að skýra áherslurnar leggjum við til tannviðgerða barna um 150 millj. kr. en 330 millj. í forvarnir til barna og ungmenna. Margt hefur stuðlað að því að við erum komin svo langt sem raun ber vitni. Góð tannheilsa helgast fyrst og fremst af því að foreldrar eru vel vakandi yfir því hve miklu máli það skiptir fyrir börn og unglinga að hirða tennur sínar vel. Þar er einnig að þakka góðu starfi í leikskólum þar sem mjög er brýnt fyrir börnum að bursta tennur og einnig er lögð áhersla á tannvernd í öðrum skólum landsins. Góð tannheilsa helgast af góðu heilbrigðisstarfsfólki, stóraukinni fyrirhyggju foreldra og opinberu framlagi gegn um uppeldisstofnanir.

Ég vil undirstrika að hið opinbera, nefnd eða stofnun á vegum ríkisins, getur ekki komið í stað forráðamanna barna í þessu sambandi. Það er grunnurinn sem allt annað byggist á en niðurstaðan er:

Á 10--15 ára tímabili hefur dregið meira úr tannskemmdum barna og ungmenna á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum. Á 10--15 árum hafa íslensk börn færst í þann flokk barna í Evrópu sem fæstar skemmdar tennur hafa. Það er gaman að segja frá því í leiðinni að á sl. 10 árum hefur innflutningur á tannkremi og tannburstum aukist tólffalt. En undanfarin 10--15 ár hefur verulega dregið úr skólatannlækningum til að mynda í Reykjavík eins og hv. þm. kom inn á áðan.

Nú má ekki skilja orð mín svo að samband sé á milli þess að dregið er úr skólatannlækningum og bættrar tannheilsu, síður en svo. Það sem hefur verið að gerast er að tannskemmdir barna og ungmenna hafa minnkað mjög mikið á sama tíma og tannlæknum hefur fjölgað umtalsvert. Þetta þýðir að tannlæknar í einkarekstri eru mun duglegri við að kalla til sín foreldra og börn og unglinga en þeir voru áður.

Burt séð frá kostnaðinum hefur niðurstaðan orðið sú að tannheilsa barna og unglinga og Íslendinga hefur farið hratt batnandi og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram.

Varðandi það sem hv. þm. kom inn á í lok máls síns vil ég taka fram að mér þykir brýnast að ná til þeirra fáu barna sem ekki skila sér í skoðun hjá einkatannlæknum og ekki í skólatannlækningakerfinu. Við vitum að þessi hópur er til en varla hve stór hann er. Oft kemur hann ekki fram fyrr en í meðaltölum þegar tekið er saman fullorðið fólk. Það er brýnt að koma til móts við þennan hóp. Við höfum verið að vinna að því í heilbrrn. Hv. fyrirspyrjandi veit örugglega um úrskurð sem Samkeppnisstofnun kvað upp um skólatannlækna. Við í heilbrrn. höfum verið að leita leiða til að koma til móts við þennan úrskurð en jafnframt við þau börn sem hér um ræðir. Þarna þurfum við að skoða heilsugæsluna og möguleika á að nýta þá starfskrafta sem við höfum eins og t.d. tannfræðinga. Í skólatannlækningakerfinu búum við að miklum mannauði sem við megum ekki glata. Við erum að vinna að þessum málum núna.