Lágmarkslaun

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:13:10 (1218)

1999-11-10 14:13:10# 125. lþ. 22.1 fundur 94. mál: #A lágmarkslaun# frv., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[14:13]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um lágmarkslaun. Flutningsmenn ásamt mér að þessu frv. eru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Kristján L. Möller.

Þetta frv. fer að verða eins og gamall kunningi á þinginu. Ég hef lagt það fram á þremur eða fjórum þingum. Ég mun seint þreytast á því meðan ég verð hér og tel ástæðu til að ræða um lágmarkslaun í landinu. Þetta er ákaflega einfalt frv. Það hljóðar svo:

,,Heildarlaun á mánuði fyrir 18 ára og eldri skulu ekki vera undir 112.000 kr. fyrir fulla dagvinnu.

2. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2000.``

Þetta er mjög einfalt í framsetningu en það er mikill þungi á bak við svona mál. Ég lít svo á að 112 þús. kr. lágmarkslaun séu neyðarlínan fyrir fólk og einstaklinga til að framfleyta sér. Ég byggi þetta á því að fjöldi manna, sem er með laun í dag undir 100 þús. kr. og er í fullri vinnu, þarf að leita aðstoðar hjá samfélaginu. Hagfræðin segir okkur að einstaklingur, sem býr við þær aðstæður að þurfa að þiggja hjálp af samfélaginu þrátt fyrir full laun, er með of lág samningsbundin laun. Þetta er einfalda röksemdin að einstaklingar skuli þurfa að þiggja af samfélaginu, búa við slæm skilyrði þrátt fyrir fulla vinnu. Þetta er meginástæðan fyrir flutningi þessa frv. Í grg. með frv. segir:

,,Frumvarp til laga um lágmarkslaun var lagt fram á 122. þingi en náði þá ekki fram að ganga. Það var lagt fram að nýju á 123. þingi í breyttri mynd. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að heildarlaun á mánuði fyrir 18 ára og eldri skuli ekki vera lægri en 112.000 kr. á mánuði fyrir fulla dagvinnu.``

Meginvandi íslensks þjóðfélags er fátækt sem stafar af lágum launum. Þetta er staðreynd. Þó að kannski sé um tiltölulega fá heimili að ræða hafa lág laun leitt til margs konar vanda og jafnvel hrakið fólk af landi brott. Þetta er staðreynd og meira að segja er það staðreynd í velferðarþjóðfélaginu á Íslandi að til Danmerkur flytja 1.000 manns fleiri en flytja þaðan til Íslands. Af hverju skyldi það vera? Það er ekki fyrir það að taxtalaun séu svo miklu lægri á Íslandi en Danmörku. Í sumum tilvikum eru taxtalaun á Íslandi hærri. En þá koma önnur atriði eins og matarverð, skattamál og jaðarskattaáhrif og eitt og annað sem hefur áhrif á það að fólk telur sér betur borgið í nágrannalandinu Danmörku sem er eins og ég sagði áðan í mörgum tilvikum með lægri útborguð laun.

Launakerfið á Íslandi hefur einkennst af feluleik með raunveruleg launakjör og launataxtar hafa verið hífðir upp með alls konar viðbótargreiðslum.

Það má líka tala um það einkenni á íslensku atvinnulífi hversu marga vinnutíma íslenskir launamenn vinna. Þess er skemmst að minnast að í samanburði sem var gerður milli Íslands og Danmerkur kom í ljós að launamaður hérlendis vinnur um 50 klst. á viku að meðaltali en danskur launamaður 39 klst. Þetta sýnir að íslenskur launamaður vinnur að jafnaði tíu vikum lengur en danskur launamaður á ári hverju. Lífskjörum hér á landi, sem eru betri en launin gefa til kynna, er þannig haldið uppi fyrst og fremst með löngum vinnudegi.

Herra forseti. Ástæða er til að minnast á það að hjálparstarf hefur sífellt aukist innan lands vegna bágs ástands á heimilunum. Samkvæmt upplýsingum hjálparstofnana og ýmissa líknaraðila hafa þúsundir einstaklinga notið matargjafa sökum fátæktar. Félagsleg aðstoð sveitarfélaga hefur aukist svo síðustu ár að þeim er mörgum um megn að sinna þeim skyldum sínum gagnvart íbúum sveitarfélaganna. Þetta eru fræðilegar staðreyndir en orsökin er fyrst og fremst lág laun, þ.e. fjölskyldurnar hafa ekki þau laun sem duga til að framfleyta sér.

Herra forseti. Ég ætla að stikla á stóru í umræðum um þetta frv. og hleyp fram hjá ákveðnum atriðum í greinargerð. Ég nefni aðeins gildistöku frv. Gert er ráð fyrir að frv. taki gildi 1. mars. Hvers vegna er miðað við 1. mars? Það er í tengslum við kjarasamninga. Ég hef lýst því yfir hvað eftir annað að nái aðilar vinnumarkaðarins viðunandi samningum og geti leiðrétt kjör þeirra lægst launuðu þá mun ég draga þetta frv. til baka í samráði við meðflutningsmenn og tel þá að tilganginum sé náð, þ.e. að ýta aðilum vinnumarkaðarins út í að semja um mannsæmandi laun fyrir þá sem eru á lægstu töxtunum.

Ég segi það að svona lagasetning ýtir undir og knýr í rauninni samningsaðila til að finna leiðir svo unnt sé að lifa af dagvinnulaunum.

Ég tel að Íslendingar verði að gera upp við sig hvort hér eigi að vera láglaunasvæði eins og staðreynd er. Það er láglaunasvæði þegar lægstu laun eru ekki hærri en 70 þús. kr. á mánuði og í ákveðnum tilvikum eru þau lægri. Hvort það á að vera þannig að landsmenn eigi og verði að vinna langan vinnudag til að halda uppi sambærilegum lífskjörum og í nágrannalöndunum eða hvort menn eru tilbúnir að þróa hagkerfið í átt til sérhæfðra stafa sem eru betur launuð. Við sem eru flutningsmenn að þessu frv. efumst ekki um að síðari leiðin sem nefnd er er gæfuríkari fyrir land og þjóð.

Herra forseti. Það er liðin tíð að hægt sé að ætlast til þess af Íslendingum að þeir vinni allt að 30% lengri vinnudag en kollegar þeirra erlendis til þess eins að ná sambærilegum launum. Það mun ekki heldur auka framleiðni íslenskra fyrirtækja ef þau eiga í auknum mæli að byggja á ódýru vinnuafli. Það er nauðsyn að snúa af þessari braut því að annars verðum við áfram láglaunaland og það er ömurlegt að þurfa að segja það. Íslendingar flokkast með láglaunalöndum vegna umsamdra lægstu launa. Það er ekki metið út frá þeim viðmiðunum sem OECD og aðrir setja fram um hagstæð lífskjör eða hagstætt líf á Íslandi.

Frv. þetta er liður í þeirri stefnumörkun jafnaðarmanna að skapa mannsæmandi umhverfi fyrir launafólk og stuðla jafnframt að heilbrigðu og þróttmiklu efnahagslífi. Ef þessi leið er ekki farin og taxtalaunin látin eiga sig eina ferðina enn í næstu kjarasamningum mun sífellt stærri hópur launamanna sitja eftir með lágmarkstaxta og eiga sér ekki viðreisnar von. Við megum ekki láta mál þróast á þann veg. Þess vegna er leiðin kannski sú að hækka verulega lægstu laun og fella niður allar aukagreiðslur þannig að launin séu sýnileg og unnt sé að komast af á lægstu launum. Þetta tel ég vera meginmálið í tengslum við þetta frv. og ég get lýst því yfir aftur að verði viðunandi árangur í samningum og lægstu launataxtar verði hífðir upp þannig að unnt sé að lifa af þeim launum sem lægstu taxtar gefa mun þetta frv. verða dregið til baka.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt varðandi það sem stendur í greinargerð. Það skýrir sig sjálft en ég óska eftir því að málinu verði vísað til hv. félmn. að lokinni umræðu.