Lágmarkslaun

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:39:09 (1223)

1999-11-10 14:39:09# 125. lþ. 22.1 fundur 94. mál: #A lágmarkslaun# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[14:39]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að í fjölda landa væru lögbundin lágmarkslaun. Við erum með samningsbundin lágmarkslaun hér á landi og við treystum aðilum vinnumarkaðarins til að sjá um þá hlið mála. Samningsbundin lágmarkslaun eru 70 þús. kr. á mánuði og hafa hækkað umtalsvert, um 40% á síðustu fjórum til fimm árum. Duga þau til framfærslu einstaklings? Ég geri ráð fyrir því, já. Það fer mjög mikið eftir því hvernig hann lifir, hvort honum nægja 70 þús. kr. eða ekki.

Það að tala um ekkjuna, væntanlega með börn, og aldraða eins og einsleitan hóp er alveg út í hött. Staða aldraðra er afskaplega mismunandi. Sumir hafa það mjög gott, eiga miklar eignir og hafa góðan lífeyri. Við höfum heyrt dæmi um fólk með mörg hundruð þúsund kr. í lífeyri. Sé ekkjan t.d. einstæð móðir þá er staða einstæðra foreldra bara þó nokkuð vel tryggð. Hún er svo vel tryggð að fólk í sambúð eða hjónabandi er oft á tíðum verr sett. Ég hef heyrt talað um fólk sem er að hugsa um að skilja vegna þess að staða þess er svo mikið lakari en væri ef annað væri einstætt og hitt á hótel mömmu.

Varðandi þessa umræðu um stöðu aldraðra og einstæðra foreldra vil ég fá raunveruleg dæmi til að fara eftir. Ég hef skoðað mörg dæmi. Öll þau dæmi sem ég hef séð eru vegna annarra aðstæðna, vegna þess að menn hafa skrifað upp á eða hafa orðið gjaldþrota en það kemur örorku eða elli ekkert við.