Lágmarkslaun

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:40:55 (1224)

1999-11-10 14:40:55# 125. lþ. 22.1 fundur 94. mál: #A lágmarkslaun# frv., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Flm. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að ræða þessi mál af hreinskilni frá sínu sjónarmiði. Okkar sjónarmið eru ekki hin sömu í þessu máli þó kannski sé svo í ýmsum öðrum. Staðreyndirnar segja okkur, það sem fram kom þegar mælt var fyrir frv. og í grg. með því, að hjálparstarf hefur sífellt verið að aukast innan lands vegna bágs ástands í góðærinu. Þeim sem þurfa að leita til hjálparstofnana er alltaf að fjölga. Það eru þúsundir einstaklinga, samkvæmt upplýsingum þessara hjálparstofnana, sem hafa leitað hjálpar vegna fátæktar. (Gripið fram í.) Þetta fólk hlýtur í flestum tilvikum að grípa til þessa í neyð.

Það er óhrekjanleg staðreynd að félagsleg aðstoð sveitarfélaganna hefur aukist svo að það er að verða sveitarfélögunum um megn að sinna þörfum fátækra, svo er í fjölmörgum sveitarfélögum. Ég ætla ekki að ræða frekar um það hvort laun hafi hækkað um 40%. Ég minni á að laun hv. alþm. hafa, á sama tíma og lægstu laun hafa hækkað um 40%, hækkað um tæp 70%, þ.e. á sama tíma og hv. þm. ræddi um. Ég veit á hve mörgum árum lægstu laun hafa hækkað um 40% og líka á hve mörgum árum laun alþingismanna hafa hækkað um tæp 70%