Umferðarlög

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:58:49 (1228)

1999-11-10 14:58:49# 125. lþ. 22.2 fundur 95. mál: #A umferðarlög# (ökuhraði) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[14:58]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frv. sem hér liggur fyrir leiðir athyglina að öryggismálum á þjóðvegum og þeirri gríðarlegu breytingu sem orðið hefur á umferð og notkun vegakerfis landsins. Við sem ökum þessa vegi og þekkjum þá vel sjáum að vegunum er ætlað að bera mun meiri og þyngri umferð en þeir eru gerðir fyrir. Á síðustu árum hefur orðið gjörbylting í umferðinni á þjóðvegunum.

Þeir flutningar sem áður fóru að stórum hluta fram sjóleiðis hafa færst inn á land og inn á allar akstursleiðir. Ekki er nóg með að flutt sé eina leið heldur fer jafnvel sama varan fram og til baka landshornanna á milli. Þetta er gjörbreytt staða frá því sem áður hefur verið gengið út frá við uppbyggingu þjóðvegakerfis landsins. Mér er hreinlega spurn: Eru vegirnir og vegakerfið sem við búum við fært um að taka á móti svo mikilli skipulagðri þungaumferð eins og nú fer fram á vegunum með tilliti til umferðaröryggis þeirra sem aka þessum bílum og annarrar umferðar við mjög breytilegar aðstæður oft og tíðum?

[15:00]

Margir vegir á Íslandi þola ekki svona stóra bíla og það er hreinlega ekki gert ráð fyrir að eftir slíkum vegum sé skipuleg þungaumferð. Miklir fiskflutningar eiga sér stað landshornanna á milli, oft á tíðum við erfiðar aðstæður. Það eru yfirleitt ekki eigendurnir sem aka þessum stóru bílum og ökumennirnir eru kannski oft bundnir af því að halda mjög stífri áætlun. Og þó svo að þeir eigi að vera þess fyllilega umkomnir að meta aðstæður þá er þetta gríðarlega mikið álag. Þetta er alveg nýtt álag á flutningaleiðir okkar sem ég tel að eigi hreinlega að skoða hvort sé löglegt. Hvort gert hafi verið ráð fyrir því samkvæmt umferðarlögum að þjóðvegakerfi okkar ætti að bera slíka umferð. Erum við ekki að stefna vegfarendum í hættu? Eru ekki þarna að fara fram flutningar sem alls ekki var gert ráð fyrir og ætti að skoða hvort það sé löglega heimilt að vera með svo skipulagða þungaflutninga á vondum vegum?

Ég nefni þetta að mörgum gefnum tilefnum. Við heyrum stöðugt fréttir af erfiðleikum og slysum á þessum flutningaleiðum og ég vil draga fram þessa gjörbreyttu stöðu.

Ég vil líka nefna stillingu ljósa. Fyrir nokkrum árum var skipulögð endurskoðun á ljósastillingum og ljósamerkingum á bifreiðum sem nú hefur fallið niður sem skipulagðar aðgerðir. Ég þekki það úr mínum akstri að iðulega finnst mér að þeir sem ég mæti vera með rangt stillt ljós og því erfitt að halda veginum þess vegna.

Gríðarleg breyting hefur orðið í allri umferð á þjóðvegunum og verður að fylgja þeirri miklu breytingu eftir með auknum öryggisreglum og öryggiskröfum. Best væri að það væru fjórfaldar akreinar þannig að þyngri bílar gætu ekið á sjálfstæðri akrein en svo er ekki og þá ber að leita allra leiða til að öryggið sé sem allra mest á þjóðvegum landsins. Ég ítreka að ég tel að mörgum af þeim vegum sem nú eru notaðir til stórþungaflutninga hefur vafalaust aldrei verið ætlað að bera þá miklu þungaflutninga sem þeir nú verða að gera.