Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 15:16:16 (1231)

1999-11-10 15:16:16# 125. lþ. 22.4 fundur 134. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., Flm. MÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Flm. (Mörður Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um afnám gjalds á menn utan trúfélaga. Í 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar er boðið að maður sem stendur utan trúfélaga greiði til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Í þessari grein er einnig kveðið á um að þessu megi breyta með lögum. Þetta er einmitt frumvarp til slíkra laga og gerir ráð fyrir afnámi gjaldtökunnar. Að auki væri með samþykkt frumvarpsins breytt þeim ákvæðum laga um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987, með síðari breytingum, sem leiða af boði fyrrnefndra ákvæða stjórnarskrárinnar.

Í stuttu máli er staða þessara mála nú sú að maður í þjóðkirkjunni greiðir sérstakt sóknargjald sem rennur til safnaðar hans eða til Jöfnunarsjóðs sókna ef þjóðkirkjumaðurinn er óstaðsettur á landinu samkvæmt þjóðskrá. Sóknargjaldið er það sama fyrir alla, innheimt af innheimtumönnum ríkissjóðs og skilað til safnaðarins í hverjum mánuði. Maður í öðru trúfélagi en þjóðkirkjusöfnuði greiðir gjald á sama hátt til þess trúfélags enda sé það skráð hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu samkvæmt sérstökum reglum sem eru nú raunar í skoðun á Alþingi með stjórnarfrumvarpi um skráð trúfélög á þskj. 69.

Þá er manni sem hvorki er í þjóðkirkjunni né í skráðu trúfélagi gert að greiða sama gjald og rennur það til Háskóla Íslands, nánar tiltekið í Háskólasjóð. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir því að bundinn verði endi á þessa gjaldheimtu.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að með þessu frumvarpi er ekki lagt til að þessi innheimtuskipan verði í sjálfu sér aflögð. Vel má líta svo á að hún sé í samræmi við hina sérstöku stöðu þjóðkirkjunnar gagnvart ríkinu og er ekki ætlunin að hrófla við henni með þessu frumvarpi. Þessi sérstaða þjóðkirkjunnar hefur svo leitt það af sér að önnur trúfélög mega að þessu leyti kallast hálfopinber ef þau hafa náð skráningu þar sem þau njóta einnig hinnar sérlegu innheimtuþjónustu af hálfu almannavaldsins. Það er ekki heldur ætlunin með þessu frumvarpi að veikja stöðu þeirra gagnvart þjóðkirkjunni hvað varðar gjaldheimtuna.

Það hlýtur hins vegar að teljast sérkennileg skipan að innheimtustörf ríkisins í þágu trúfélaga gangi svo langt að þau nái til þeirra sem eru alls ekki í neinu trúfélagi. Ég kem ekki auga á það að sú sérstaða trúfélaga meðal frjálsra félagasamtaka, sem leiðir beint af þjóðkirkjufyrirkomulaginu, geti gefið ríkinu rétt til að leggja á það gjald sem hér um ræðir. Raunar er athyglisvert að stjórnarskrárgjafinn sem svo er kallaður virðist sjálfur hafa haft slíkar efasemdir um þessa skipan að hann heimilar breytingu á stjórnarskránni með almennum lögum hvað þetta varðar en slík ákvæði eru afar sjaldgæf í stjórnarskrá okkar. Það er ekki langt að sækja grundvöll þessara efasemda minna og stjórnarskrárgjafans því að í sömu grein stjórnarskrárinnar er kveðið á um þann grundvallarrétt að öllum sé heimilt að standa utan trúfélaga og að enginn sé skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að. Enn segir í sömu grein að enginn megi neins í missa af borgaralegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna sem er einboðið að leggja út á þann veg að enginn megi heldur neins í missa vegna þess að hann hafi engin trúarbrögð eða þá önnur trúarbrögð en þau sem embættismenn í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu íslenska hafa fallist á sem slík.

Umrædd 64. gr. stjórnarskrárinnar ber því sjálf í sér helstu mótrökin við ákvæði sínu um gjaldheimtu á menn utan trúfélaga. Önnur rök er einnig að finna í stjórnarskránni, nefnilega í 74. gr. um félagafrelsi þar sem hvort tveggja er tiltekið, að mönnum sé heimilt að stofna félög og að engan megi skylda til aðildar að félagi nema sérstakar ástæður liggi að baki. Með því að skatta utansafnaðamenn er í raun verið að gera þá að óbeinum aðilum að heildarsamsteypu trúfélaganna og varðar það þá ekki málið hvert gjald þeirra rennur að lokum.

Ekki hefur mér vitanlega verið kannað á Íslandi hvers vegna menn kjósa að standa utan trúfélaga. Ég geri ráð fyrir að þar sé engin ein ástæða öðrum fremri. Sumir hafa önnur trúarbrögð en þau sem skráð eru, aðrir eru ef til vill ósáttir við það trúfélag sem stendur næst trúarskoðun þeirra, enn aðrir líta svo á að skipuleg trúarbrögð séu ekki nauðsynlegur þáttur í lífi þeirra og til eru þeir sem láta sig þessi mál engu skipta, er bara alveg sama, og hafa til þess fullan rétt. Allir eiga þessir menn það sameiginlegt að hafa notað sér stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að standa utan formlegs trúfélags. Þennan rétt ber yfirvöldum að virða og því á löggjafinn að afnema hina óréttlátu skattheimtuskipan.

Samkvæmt eðli máls hafa þeir menn sem standa utan trúfélaga á hinn bóginn verið skráðir nákvæmlega á Íslandi síðustu sex til sjö áratugi. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru þeir við upphaf þessa árs 5.746 eða 2,09% allra Íslendinga. Sé miðað við landsmenn 16 ára og eldri er þetta hlutfall hærra, eða 2,34%. Það hefur fjölgað verulega í þessum hópi undanfarin ár eins og menn vita. Fyrir áratug, árið 1989, töldust 3.364 utan trúfélaga, eða 1,33% landsmanna allra. Fjölgunin á þessum tíma er rúm 40% talið í mönnum og um 36% ef bornar eru saman hlutfallstölur.

Við þetta verður að bæta að auk eiginlegra utantrúfélagamanna greiða einnig þeir gjald til Háskóla Íslands sem teljast vera í óskráðum trúfélögum eða eru flokkaðir hjá Hagstofunni undir ,,ótilgreint``. Í þessum hópi hefur fjölgað undarlega mikið síðasta áratug. Árið 1989 var talan 955 en nú, tíu árum síðar, 4.335, og kann hluti þessarar aukningar að stafa af stórauknum fjölda nýbúa á Íslandi síðustu árin. Í heild eru því þeir sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni eða skráðum söfnuðum nú árið 1999 rúmlega 10 þúsund en voru fyrir áratug rúmlega 4.300.

Sóknargjald er nú samkvæmt upplýsingum frá ríkisbókhaldi 479,21 kr. á mann á mánuði, eða 5.750,52 kr. árlega. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu sem liggur hér í þinginu er gert ráð fyrir að í heild greiði menn utan skráðra trúfélaga 52 millj. kr. um ríkissjóð til háskólans. Mér sýnist reyndar miðað við áðurnefndar upplýsingar að þessi fjárhæð ætti að vera tæplega 58 millj. en ætla ekki að deila um það við reikningsmenn fjármálaráðuneytisins enda gæti innheimtan verið broguð, meðal annars í hinum einkennilega hópi sem Hagstofan kallar ,,ótilgreint``.

Hér er auðvitað ekki um mikið fé að ræða fyrir hvern einstakling enda er þetta frumvarp ekki flutt til þess fyrst og fremst að þyngja mönnum pyngjuna heldur sem réttlætismál. Þetta er hins vegar verulegt fé fyrir þann sem nú nýtur gjaldheimtunnar og kem ég að því aftur að lokum framsöguræðunnar.

Herra forseti. Trúarnauðung er orðið sem lögfræðingar nota um skipan trúmála á Íslandi frá árinu 1000 eða 999 og nokkurn veginn fram til stjórnarskrárinnar sem vísir hinn stórráði, Kristján 9., færði áum okkar árið 1874. Með henni var á Íslandi komið á trúfrelsisákvæðum sem Danir höfðu notið frá 1849 og eiga sér rætur í borgarabyltingunum miklu í lok 18. aldar. Í stjórnarskránni var þó notað það orðalag, með leyfi forseta, að ,,landsmenn eiga rétt á að stofna félög til að þjóna guði með þeim hætti sem best á við sannfæringu hvers eins`` og var þetta í samræmi við dönsku grundvallarlögin. Samkvæmt orðanna hljóðan var sem sé gert ráð fyrir því að allir þjónuðu guði og má því segja að trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar 1874 hafi verið takmörkuð þar sem sérstaklega var gert ráð fyrir tilvist guðs þótt stjórnarskrárgjafinn leyfði mönnum að vera ósammála um aðferðirnar sem þeir nýttu sér til þjónustu við hann. Þetta ákvæði hélst raunar með álíku orðalagi allt til stjórnarskrárbreytinganna 1995 þegar hv. þingmenn umorðuðu greinina þannig að menn hefðu rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína. Þá urðu sem sé þau þáttaskil í sambýli þjóðarinnar við almættið að guð á himnum naut ekki lengur þeirrar staðfestingar í stjórnarskrá Íslands sem hann hafði búið við í 121 ár og þar áður samfellt í svipuðum plöggum allt aftur til Kristinna laga þáttar Grágásar.

Það var hins vegar í stjórnskipunarlögunum, sem konungur undirritaði árið 1915, sem viðurkenndur var til fullnustu réttur manna til að standa utan trúfélaga en sú stjórnarskrárbreyting hefur síðar orðið kunnust fyrir hin framsýnu ákvæði sín um kosningarrétt kvenna. Þá er sett inn það ákvæði sem enn stendur efnislega um að engan megi skylda til að borga til trúfélags sem hann tilheyrir ekki og um að maður utan þjóðkirkjunnar sem heyrir ekki til öðrum viðurkenndum trúarbragðaflokki, eins og það er orðað, borgi gjald til hins nýstofnaða háskóla.

Stjórnarskrárbreytingin 1915 á rót að rekja til þingmannafrumvarps árið 1913. Flutningsmenn þess voru velþekktar þinghetjur, þeir Bjarni Jónsson frá Vogi, Skúli Thoroddsen og Benedikt Sveinsson, og það er athyglisvert að í frumvarpi þeirra var lögð til sú sama skipan sem frumvarp mitt gerir ráð fyrir að menn utan safnaða séu lausir undan hvers konar greiðslum vegna trúfélaga. Í frumvarpi Bjarna, Skúla og Benedikts, er lagt til að við 47. gr. þáverandi stjórnarskrár bætist einungis þetta, með leyfi forseta: ,,Enginn er skyldur að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarrar guðsdýrkunar en þeirrar er hann sjálfur aðhyllist.`` Ákvæðið um gjald utankirkjumanna kemur ekki við sögu fyrr en í nefndaráliti. Um það ákvæði urðu verulegar umræður á þinginu 1913. Af þeim umræðum að dæma virðist það fyrst og fremst hafa vakað fyrir stuðningsmönnum viðbótarinnar um háskólagjaldið að ef utankirkjumenn yrðu gjaldfríir mundi hefjast straumur úr þjóðkirkjunni til að losna við sóknargjöldin, og því væri rétt að fara varlega að þessu sinni, af praktískum ástæðum, eins og það er orðað á einum stað í umræðunum. Hér væri að minnsta kosti um réttarbót að ræða frá því sem áður hefði verið. Einn stuðningsmanna ákvæðisins, Jón Magnússon, síðar forsætisráðherra, orðar þessa hugsun svo í umræðunum, með leyfi forseta: ,,Því verður ekki neitað að þetta er bót á því ástandi sem nú er. Nú er mönnum gert að skyldu að greiða þetta gjald til þjóðkirkjunnar, jafnvel þó að það geti verið á móti trúarskoðunum þeirra. Þessi tillaga nefndarinnar fer miklu fremur í þá átt að leysa heldur en að binda. Ég skil ekki hvernig menn fara að tala um þetta eins og hér sé verið að leggja nýtt gjald á menn. Þetta er einmitt rýmkun frá því sem nú er.``

Andstæðingar ákvæðisins gagnrýndu það harðlega, og einn þeirra, Bjarni frá Vogi, sagði um þær mótbárur að hætt væri við að menn hlypu hópum saman úr þjóðkirkjunni, eins og hann orðaði það, þetta hér, með leyfi forseta: ,,þeir menn er svo tala gera lítið úr krafti kristinnar kirkju. Og ef hún stendur ekki fastari fótum en það að menn vilja ekki leggja á sig lítilfjörlegt gjald hennar vegna, þá er hún óþörf og má gjarnan hverfa úr sögunni.``

Rök þeirra sem andæfðu viðbótinni um gjaldið koma vel fram hjá þeim Skúla Thoroddsen og Matthíasi Ólafssyni, þingmanni Ísfirðinga, kaupmanni og erindreka Fiskifélagsins. Skúli segir, með leyfi forseta: ,,Ef menn eru ekki í neinum söfnuði, finna enga hvöt hjá sér til þess, en telja sig geta séð trúarþörf sinni borgið án þess, þá eiga þeir og að geta verið lausir við safnaðarútgjöld, hvert sem þau eru látin renna.`` Matthías bætir um betur, með leyfi forseta: ,,Mér finnst vera gengið svo á persónulegt frelsi manna með þessu ákvæði, að þegar menn eigi vilja borga til eins skuli þeir neyddir til að borga til annars. Það er eins og þetta eigi að vera refsing á mennina. En það er svo mikið misrétti í þessu ákvæði að það með engu móti má standa í stjórnarlögum Íslendinga.``

Tillaga um að nema ákvæðið brott var að lokum felld í neðri deild með 15 atkvæðum gegn 10, og mér er það sérstakur heiður að kalla hér til stuðnings þeirri tillögu og frumvarpi mínu 86 árum síðar þá Benedikt Sveinsson, Bjarna Jónsson frá Vogi, Einar Jónsson á Geldingalæk, Guðmund Eggerz sýslumann, Halldór Steinsson lækni, Jón Ólafsson, skáld og ritstjóra, Magnús Kristjánsson, síðar fjármálaráðherra, Matthías Ólafsson, Sigurð Sigurðsson búfræðing og Skúla Thoroddsen.

Efri deild virðist hafa talið málinu lokið með þessari rimmu í neðri deildinni og árið eftir keppast þingmenn við að sýna einhug um frumvarpið allt til að fá það samþykkt hjá kónginum í Kaupinhafn enda í húfi ekki einungis kosningarréttur kvenna og vinnumanna heldur veruleg réttarbót um stöðu landsins í Danaveldi og að auki afnám konungkjörinna þingmanna, svo nokkuð sé nefnt.

[15:30]

Ég hef gerst langorður um þessar umræður á þinginu 1913, hæstv. forseti, vegna þess að þá þegar, í upphafi aldarinnar sem nú er að lokum komin, koma fram helstu rök í því máli sem frumvarp mitt varðar. Þetta voru frjálslyndir tímar, og það má skjóta því hér inn sem vísi að söguskoðun að forustumenn í íslenskum stjórnmálum voru á þessu méli, rétt fyrir fyrri heimsstyrjöld, enn þá undir miklum áhrifum frá Vesturheimi sem kann að eiga ólítinn hlut að viðhorfum þeirra bæði um trúmál og kvenfrelsi.

Ljóst er að það var álit verulegs hluta þingsins að það væri óréttlátt að neyða menn til að greiða sérstaklega fyrir það að standa utan trúfélaga. Einn þingmaðurinn kallaði það refsingu. Meiri hluti þingsins virðist hins vegar hafa talið heppilegast að koma þessu svona fyrir af praktískum ástæðum, fyrst og fremst vegna þess að annars gæti fjárhagsgrundvöllur þjóðkirkjunnar raskast. Hér væri stigið verulegt skref í frelsisátt, og það nægði í bili. En næsta skref var aldrei stigið.

Sagan er lærdómsrík en það er líka skynsamlegt að athuga hvernig málum er háttað hjá frændum okkar handan Atlantsála, fólki sem um margt á sömu sögu og við, tók við kristinni trú á svipuðum tíma og gekkst lútersku á hönd á undan okkur. Skemmst er frá því að segja að þar er þessum málum alls staðar komið fyrir með öðrum og sanngjarnari hætti en hjá okkur. Í Danmörku sér ríkið þjóðkirkjunni fyrir fé með beinum framlögum sem nema um 12% tekna hennar. Önnur trúfélög njóta ekki slíks stuðnings og sætir þessi skipan nokkurri gagnrýni. Að auki er lagður svokallaður kirkjuskattur, ,,kirkeskat`` á þarlenda þjóðkirkjumenn, tekjutengdur, en enginn slíkur opinber skattur er lagður á menn í öðrum trúfélögum, hvað þá á menn utan trúfélaga.

Í Svíþjóð hefur tíðkast sú skipan að þjóðkirkjumenn borga sóknargjald, svokallað ,,församlingsavgift``. Menn í öðrum trúfélögum og utan trúfélaga greiða hluta þessa gjalds til þjóðkirkjunnar, um fjórðung, og eru rökin þau eða hafa verið að víða í Svíþjóð sér sænska þjóðkirkjan um útfarir að ákveðnu marki, þannig að þessu gjaldi má á vissan hátt jafna til kirkjugarðsgjalds okkar Íslendinga. Sem kunnugt er gengur nú um áramótin í gildi ný skipan um tengsl ríkis og kirkju í Svíþjóð. Ein af breytingunum sem þá verða er sú að sænska sóknargjaldið takmarkast eingöngu við þjóðkirkjumenn, en ríkið innheimtir jafnframt sóknargjöld fyrir þau trúfélög önnur sem þess óska, þannig að eftir áramót greiða menn utan trúfélaga engan skatt eða gjald af þessu tagi. Útfarar- og grafarlegskostnaði verður þá komið fyrir með öðrum hætti.

Í Finnlandi eru málefni kirkna og ríkis í endurskoðun og á henni að ljúka næsta haust, í september. Nú er þessum gjaldheimtumálum þannig háttað að Finnar í opinberu kirkjunum tveimur, lútersku kirkjunni og rétttrúnaðarkirkjunni, greiða tekjutengdan kirkjuskatt sem ríkið innheimtir, en ríkið hefur engin slík afskipti af öðrum trúfélögum og menn utan trúfélaga borga auðvitað ekki til þessara mála nema það sem þeim sjálfum sýnist.

Í Noregi er svo við lýði allt önnur skipan en í grannlöndunum. Þar eru einfaldlega engin opinber sóknargjöld sem einstaklingar greiða heldur veitir ríkið fé til trúfélaga af almennum skatttekjum, og miðast sú fjárveiting við að hvert trúfélag fái sömu upphæð á hvern félaga sinn. Ríkið styrkir á sama hátt svokölluð lífsskoðunarfélög --- Weltanschauung er orðið sem notað er í fræðunum --- þ.e. félög sem annast borgaralegar athafnir jafngildar hinum kirkjulegu, svo sem nafngjöf, fermingu, útför o.s.frv. og aðhyllast sæmilega skilgreind grundvallarsjónarmið um guðshugmynd og framhaldslíf. Hér er fyrst og fremst um að ræða samtökin Human-etisk forbund, sem eru systursamtök hinnar íslensku Siðmenntar.

Aðalheimild mín um þessi efni er nýleg skýrsla eftir Ole Espersen, mannréttindafulltrúa hjá Eystrasaltsráðinu, og heitir á ensku ,,The Right to Freedom of Religion and Religious Associations`` og gerir líka grein fyrir stöðu mála í Eystrasaltsríkjunum, Þýskalandi, Póllandi og Rússlandi. Niðurstaðan af þessu ferðalagi okkar um Norðurlönd er afdráttarlaus. Í ljós kemur að hin íslenska skipan um gjöld manna utan trúfélaga er einstæð. Hvergi í þessum frændríkjum okkar tíðkast það að þegar menn eigi vilja borga til eins skuli þeir neyddir til að borga til annars, eins og Matthías Ólafsson sagði hér í þessum sal árið 1913.

Hæstv. forseti. Það er auðvitað ljóst að við samþykkt þessa frumvarps mundi Háskóli Íslands missa spón úr sínum aski, yfir 50 millj. í Háskólasjóðinn á ári. Um það efast ég ekki að það yrði verulegt áfall fyrir háskólann að missa þetta fé. Sá sem hér talar spurðist fyrir um Háskólasjóð á þinginu 1996--1997 og fékk meðal annars upp úr krafsinu skrá um stöðu sjóðsins og úthlutanir úr honum í átta ár. Í svari hæstv. menntamálaráðherra kom fram að svokölluð sóknargjöld utantrúfélagamanna eru nánast einu tekjur sjóðsins fyrir utan vexti og verðhækkun verðbréfa. Tilgangur sjóðsins er að efla menningarstarfsemi innan háskólans, svo sem útgáfustarfsemi, fyrirlestra fyrir almenning, tónleikahald og annað það sem verðugt er að mati háskólaráðs auk þess að leysa óvænta fjárþörf sem upp kann að koma í skólasamfélaginu. Til að gefa hugmynd um verkefni sjóðsins skulu tiltekin hér nokkur dæmi frá árinu 1996. Úthlutanir það ár voru samtals 46 og námu alls rúmum 20 millj. Hæsti styrkurinn var til Styrktarsjóða Háskóla Íslands, rúmar 3 millj., þá til Kennslumálasjóðs um 2,7 millj., Kennsluvarp Háskóla Íslands fékk rúmlega 2,3 millj. og Hollvinasamtök Háskóla Íslands fengu úthlutað tæpum 2 millj. Mikið ber á ferðastyrkjum, bæði til kennara og nemenda. Þar er til dæmis kynnisferð til fjölmiðlafyrirtækja í London með nemendum í fjölmiðlafræði, ferð stúdentaráðsfulltrúa á kvennaráðstefnu stúdenta í Ósló, þátttaka í norrænu sumarnámskeiði í kortagerð, ferð til að kynnast fyrirkomulagi rannsókna og kennslu í fornleifafræði við háskólann í Tromsö, ferð laganema á málþing laganema í Róm, og ýmsar aðrar ferðir á ótiltekna staði. Veittir eru eins og fyrri ár styrkir til ýmissa stofnana háskólans, til dæmis Siðfræðistofnunar, Sagnfræðistofnunar, Mannréttindastofnunar og alþjóðaskrifstofu háskólastigsins. Veittir eru styrkir til fag- og menningarfélaga stúdenta, til dæmis til Félags læknanema, Félags hagfræðinema, Mímis og Háskólakórsins, og einstökum starfsmönnum háskólans eru veittir styrkir til ýmissa þarfa, til dæmis til framhaldsmenntunar í sjúkraþjálfun.

Þessi upptalning sýnir að háskólanum hlýtur að vera verulegur fengur að þessum tekjum við menningar- og fræðslustarf innan skólans, og er ljóst að tryggja verður einhvern annan tekjustofn fyrir háskólann til að styrkja þar ýmislegt gott málefni.

Hins vegar geta verkefni Háskólasjóðs ómögulega talist slík þjóðarnauðsyn að fjár sé aflað til þeirra með þessari einstæðu gjaldheimtu á hóp manna sem ekki hefur nein sérstök tengsl við umrædda stofnun eða framantalin verkefni.

Hæstv. forseti. Ég hef í þessari framsöguræðu forðast upphrópanir og stóryrði sem algeng eru í umræðum um réttindamál af þessum toga en reynt þess í stað að sýna fram á að nú sé kominn tími til að stíga næsta skref eftir það sem fyrirrennarar okkar stigu á þingunum 1913 og 1914, skref sem færir okkur þann veg fram á við að Íslendingar yrðu í þessum efnum nokkurn veginn jafnfætis öðrum norrænum þjóðum. Ég hef einnig af ásettu ráði látið eiga sig að bera skipan þessara mála hérlendis nákvæmlega við almenn mannréttindaákvæði innlend og alþjóðleg eða fjalla ítarlega um sóknargjald utankirkjumanna í ljósi reglunnar um jafnræði þegnanna gagnvart skattheimtu og gjaldaálagningu af opinberri hálfu. Ég tel að í ljósi þeirra upplýsinga sem ég hef hér stuðst við eigi einmitt þetta að vera meginverkefni þingsins við umfjöllun um málið.

Ég legg til að umrætt frumvarp gangi að lokinni þessari umræðu til allsherjarnefndar.