Frumvörp um fjarskiptamál

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 10:32:16 (1236)

1999-11-11 10:32:16# 125. lþ. 23.91 fundur 131#B frumvörp um fjarskiptamál# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[10:32]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér á að taka til umræðu 6. mál, frv. um fjarskipti. Í greinargerð með þessu frv. segir í 5. lið, með leyfi forseta:

,,Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp að nýjum lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Breytast gildandi lög um stofnunina til samræmis við þær breytingar sem verða á fjarskiptalögum.``

Í gær fengum við afhenta dagskrá næstu daga. Þegar þingflokkur Samfylkingarinnar fór að skoða hvað yrði til umræðu það sem eftir lifði viku og næstu daga varð okkur ljóst að þrátt fyrir að boðað hefði verið að þessi frv. yrðu lögð fram samhliða, er bara annað málið komið fram, frv. um fjarskipti sem hér á að taka til umræðu. Frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki borist þingmönnum hér í þingsal.

Við í þingflokki Samfylkingarinnar teljum ófært að ræða þessi mál hvort í sínu lagi. Við óskum eftir því að við getum rætt þessi mál saman og skiljum reyndar ekki að sett skuli á dagskrá að ræða eigi annað málið án þess að þingmenn hafi svo mikið sem séð hvað felst í frv. um Póst- og fjarskiptastofnun.

Það er ekki hægt að fjalla um umgjörð og eftirlit með þessum málum nema þau fylgist að, það er mjög einfalt. Það er mjög mikilvægt að málin komi fyrir þingið saman og séu rædd í samhengi. Mér kemur þetta vinnulag afar mikið á óvart og gagnrýni það. Ég beini til forseta ósk um að þessu máli verði frestað þar til frv. um Póst- og fjarskiptastofnun hefur komið á borð þingmanna og við sjáum hvað í því felst. Það væri heldur ekki verra að heyra sjónarmið ráðherra varðandi það að málin berast þinginu með þessum hætti. Ég spyr hvort það sé vegna þess að ágreiningur sé um síðara málið, um Póst- og fjarskiptastofnun.