Frumvörp um fjarskiptamál

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 10:36:15 (1238)

1999-11-11 10:36:15# 125. lþ. 23.91 fundur 131#B frumvörp um fjarskiptamál# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[10:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, formanni þingflokks Samfylkingarinnar, um að það er eðlilegt að þau tvö frv. sem hún vísar til verði rædd heildstætt. Í það minnsta þyrftu menn að fá að sjá frv. um Póst- og fjarskiptastofnun enda segir í greinargerð með frv. um fjarskipti, með leyfi forseta:

,,Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp að nýjum lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Breytast gildandi lög um stofnunina til samræmis við þær breytingar sem verða á fjarskiptalögum.``

Nú hafa borist fréttir af því í fjölmiðlum að undanförnu að um skipan þessara mála sé ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar. Það er mjög mikilvægt að Alþingi viti fyllilega hvað hér er á ferðinni, ekki síst þar sem vísað er til þess í frv. sem á að fara að ræða hér á eftir. Ég styð þá eðlilegu kröfu að umræðu um fjarskiptafrv. verði frestað þar til frv. um Póst- og fjarskiptastofnun liggur fyrir og hefur verið lagt fram á Alþingi.