Frumvörp um fjarskiptamál

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 10:41:49 (1242)

1999-11-11 10:41:49# 125. lþ. 23.91 fundur 131#B frumvörp um fjarskiptamál# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[10:41]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafi einmitt flutt bestu rökin fyrir því að nauðsynlegt sé að fresta þessu máli. Eins og flestir vita þá fer aðalvinnan fram í nefnd og sú vinna mun fara fram undir forustu og stjórn formanns samgn. Hann er með fjarvistarleyfi í dag og getur því ekki lagt sitt af mörkum til umræðunnar. Þannig er fráleitt að undirbúningurinn að þeirri vinnu sem fram undan er undir hans verkstjórn eigi fari fram án þess að hann sé viðstaddur. Þetta er fráleitt, virðulegi forseti, enda kom fram í máli hæstv. samgrh. að vinnunni að þessum málum er ekki að fullu lokið. Það eru enn frekari rök til að málinu verði frestað, virðulegi forseti.

Ég vil taka undir þessa kröfu og ítreka að þessu máli verði að fresta og ræða samhliða frv. um Póst- og fjarskiptastofnun. Málið er umfangsmikið og innan ramma þessara tveggja frv., þeirra laga sem hugsanlega verða samþykkt í framhaldinu, mun upplýsingabyltingin þróast. Þetta er gríðarlega mikilvægt og ég ítreka, virðulegi forseti, að nauðsynlegt er að ræða þessi mál saman.