Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 11:47:54 (1258)

1999-11-11 11:47:54# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[11:47]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu afskaplega athyglisvert frv. Segja má að það sé tímanna tákn að fyrir tæpum þremur árum var afgreitt frá hinu háa Alþingi sambærilegt frv. sem lög frá þinginu þar sem rofin var áralöng einokun Landssímans og stigið afskaplega merkilegt skref hvað varðar fjarskipti. Núna, aðeins þremur árum síðar, er enn verið að flytja frv. með breytingum hvað varðar fjarskipti.

Þetta er í rauninni ekkert skrýtið. Í rauninni er meginástæðan hinar öru tæknibreytingar sem verða á þessu sviði. Eiginlega má spyrja sem svo hvenær þingið muni þurfa að koma aftur saman til þess að bregðast við hinni öru þróun.

Einstaklingar eiga fullt í fangi með að henda reiður á framförum á sviði fjarskipta, hvað þá löggjafarsamkoman. Ég fagna ákvæðum þessa frv. og ég tel sérstaklega tvo þætti skipta efnislega mestu máli fyrir framfarir í landi okkar. Annars vegar tel ég að kjarni þessa frv. feli í sér að landið allt er í rauninni lagt undir. Segja má að verði þetta frv. að lögum séu með því lagðir vegir 21. aldar um landið allt, þ.e. ef við lítum á fjarskiptatæknina sem samgöngubrautir 21. aldar liggja þessar brautir nánast að hverju byggðu bóli á landi okkar.

Með þessu er í rauninni verið að búa landið allt undir það að taka virkan þátt í nútímafjarskiptum og það má segja að geti verið grunnur að mesta byggðamáli þjóðarinnar enda hefur það komið fram m.a. hjá alþjóðastofnunum að mestar framfarir og mest aukning og eftirspurn eftir vinnuafli muni verða á sviði fjarskiptatækni. Þess vegna er hvað þetta varðar mjög mikilvægur þáttur dreginn upp í frv. og ég fagna því.

Í annan stað er mikið hagsmunamál fyrir neytendur að hér skuli vera hert á og skerpt samkeppni á sviði fjarskiptatækni. Samkeppni á þessari nýju samgöngubraut er þegar orðin mjög skörp og hörð og mun með þessu frv., verði það að lögum, aukast enn frekar. Sú samkeppni felur aðeins í sér aukin gæði á lægra verði til neytenda ef að líkum lætur. Af þessum tveimur ástæðum, herra forseti, tel ég að beri að fagna ákvæðum þessa frv. og ég tel að það muni hafa veruleg áhrif á þjóðlíf okkar á 21. öld.

Hins vegar kæmi ekki á óvart þó að Alþingi þyrfti að koma saman fljótlega á nýrri öld til þess að breyta enn lögum vegna tæknibreytinga á þessu sviði.

Hér hefur nokkuð verið rætt um eignaraðild í fjarskiptum, ríki eða eignaraðilar. Nú er ljóst að Landssíminn hefur um áratugabil haft mikla einokunaraðstöðu og tekist að byggja upp mjög ágætt samskiptanet fyrir þjóð okkar en um leið byggt upp mikla yfirburðastöðu gagnvart nýjum samkeppnisaðilum sem koma inn á markaðinn. Tæknin hefur leitt til þess að nýir aðilar hafa komið inn á markaðinn og eru að keppa við þann volduga risa sem Landssíminn er. Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur Framsfl. tekið mjög vel í það og telur að vel komi til greina að undanskilja grunnnetið frá öðrum rekstri þannig að grunnnetið verði í eigu ríkisins. Framsfl. telur að það komi mjög vel til greina ef það þjónar best hagsmunum þjóðarinnar.

Hins vegar er vert að hafa það í huga eins og öllum er kunnugt að tæknin á þessu sviði er afskaplega ör og við þurfum þess vegna að bregðast við og skoða á hverjum tíma hvaða tækni er að ryðja sér til rúms. Ég nefni þetta, herra forseti, m.a. vegna þess að í umræðu hefur verið nú um nokkurra ára bil svokölluð Low Orbit-tækni þar sem gert er ráð fyrir því að fjarskipti fari um himinhvolfin í stað þess að brautin sé grafin í jörðu.

Sú staða kann að koma upp að eignarhaldið á grunnnetinu skipti í rauninni engu máli verði þessi Low Orbit-tækni orðin almenn í veröldinni, þá erum við ekki að keppa einungis um grunnnet innan lands heldur á alþjóðlegum markaði við alþjóðlega risa eins og er í rauninni þegar farið að gera. Það er nú þannig, herra forseti, að þegar eru nokkuð margir sem kaupa sér þjónustu m.a. frá erlendum símafyrirtækjum. Meginatriðið í þessu er að við þurfum að fylgjast með þeirri þróun sem á sér stað.

Kostir við að undanskilja grunnkerfið og halda því í eigu ríkisins eru auðvitað nokkrir. Kosturinn við það er m.a. að ríkið heldur einungis grunnkerfinu en lætur síðan ýmis fyrirtæki í einkaeigu um að keppa á þeirri braut.

Annar kostur er sá að með því er verið að tryggja jafnræði í þeirri hörðu samkeppni sem orðin er og mun verða á sviði fjarskiptatækni. Við þekkjum umræðuna, ákveðin tortryggni er frá samkeppnisaðilum Landssímans þar sem gengur á brigslyrðum á víxl og slíkri tortryggni þarf auðvitað að eyða. Með því að undanskilja grunnkerfið er verið að stíga skref í þá átt. Þá er m.a. verið að koma í veg fyrir þær ásakanir að yfirburðaaðili á markaðinum sé að notfæra sér fé úr grunnnetinu og færa yfir á aðra rekstrarþætti í samkeppni við einkaaðila.

Samkeppnin átti að lækka verð og ég nefni einn þátt til viðbótar, herra forseti, sem kost við það að ríkisvaldið haldi grunnkerfinu en selji frá sér aðra þætti, nefnilega þann kost að geta sinnt ýmsum pólitískum markmiðum sínum, svo sem að sinna byggðaþróun eða þar fram eftir götunum. Gallinn við það, herra forseti, að aðskilja grunnkerfið frá öðrum rekstri getur verið sá að þar með er ekki verið að taka upp samkeppni í grunnfjarskiptum. Það tel ég e.t.v. vera einn mesta gallann við kerfið.

Ég nefni þetta, herra forseti, af því að eignaraðildin hefur komið fram í umræðunni og ég ítreka að Framsfl. telur koma til greina að undanskilja grunnkerfið.

Þá vil ég að lokum, herra forseti, víkja aðeins að því sem hefur verið nefnt um samkeppnina og eftirlitsaðila. Sú umræða á í rauninni eftir að fara fram en ég vil þó leggja áherslu á að við þurfum að styrkja Samkeppnisstofnun sem virkan eftirlitsaðila í harðnandi heimi samkeppninnar og þurfum að veita þeirri stofnun þau tæki og tól sem þarf til að fylgja eftir samkeppninni, ekki síst til að koma í veg fyrir fákeppni á einhverjum sviðum, hvort heldur það er á fjarskiptamarkaði, matvælamarkaði eða öðrum markaði. Það er mjög mikilvægt að Samkeppnisstofnun hafi þau tæki og tól sem unnt er til að koma í veg fyrir ódrengilega samkeppni sem stuðla kann að fákeppni.

Ég ítreka það, herra forseti, að meginákvæði þessa frv. eru til bóta. Hér kann að vera á ferðinni eitt mesta byggðamálið sem stigið hefur verið um langt árabil og hagsmunir neytenda eru nánast tryggðir hvað varðar gæði og verð í harðri samkeppni í hörðum heimi.