Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:25:15 (1266)

1999-11-11 12:25:15# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:25]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna orða hæstv. samgrh. Í fyrsta lagi vil ég segja að eitt af því versta sem fyrir kann að koma í stjórnsýslu er samkeppni milli stofnana um hver lögsaga þeirra sé, vegna þess að hæstv. ráðherra talaði um æskilega samkeppni milli eftirlitsstofnana ríkisvaldsins. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það er kannski það versta sem fyrir okkur kynni að koma. Kannski er grunntónninn í því sem ég var að reyna að draga fram, þ.e. hvert hlutverk Samkeppnisstofnunar væri og hvert hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar væri, að ég óttaðist þessa árekstra.

Virðulegi forseti. Umræða er um fyrirhugaða sölu Landssímans, sem augljóslega tengist þessari umræðu, og hæstv. samgrh. segir í greinargerð með frv. sínu að fyrirhugað sé að umrædd þjóðbraut verði í eigu fyrirtækja. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin ætlar að selja Landssímann. Það er yfirlýst markmið. Því spyr ég, virðulegi forseti, og það verður ekkert undan því vikist að svara því í þessari umræðu: Er það vilji hæstv. samgrh. að selja Landssímann með grunnnetinu? Af orðum hans verður ekki annað ráðið í þessari umræðu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það komi hreint og klárt fram í þessari umræðu. Er það vilji hæstv. samgrh. að þegar Landssíminn verður seldur þá verði grunnnetið selt og væntanlega þá breiðbandið einnig með?