Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:27:02 (1267)

1999-11-11 12:27:02# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:27]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég vekja athygli hv. þm. á því sem ég sagði, að ég tel mjög mikilvægt að þessar eftirlitsstofnanir, Póst- og fjarskiptastofnun annars vegar og Samkeppnisstofnun hins vegar fóti sig vel í þessu mikilvæga hlutverki sínu. Ég óttast ekki um þær, ef allt er með felldu. Samkeppni milli þessara stofnana í þeim skilningi sem samkeppnislög gera ráð fyrir á náttúrlega ekkert við, enda var það nú frekar til gamans gert að segja frá því spjalli en að þar væri alvara á ferðinni.

Hvað varðar sölu á Landssímanum þá ítrekaði ég hér fyrr í dag að við erum ekki að fjalla um söluna núna en við erum að fjalla um það umhverfi sem fyrirtækin þurfa að starfa eftir, þ.e. fjarskiptalöggjöfina. Ég hef lýst því og það á ekki að koma neinum á óvart að ég tel að æskilegasta fyrirkomulagið væri að sami aðili bæri ábyrgð á grunnnetinu, rekstri grunnnetsins og uppbyggingu og sá sem selur þjónustuna. Þannig mundum við best tryggja þjónustu fyrir alla, fyrir allt landið. En ég hef líka sagt að um þetta þurfum við að sjálfsögðu að ræða allt. Ég hef aldrei bitið mig fastan í neinar kennisetningar. En eins og málin standa núna þá tel ég að þetta sé líklegasti og besti kosturinn og besta fyrirkomulagið.