Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:54:33 (1277)

1999-11-11 12:54:33# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:54]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ofsagt hjá hv. þm. að það gangi á með kærum. Nú er það þannig að deilur hafa verið á milli samkeppnisaðila en sem betur fer eru fyrirtækin að átta sig á því að gerðar eru til þeirra þær kröfur að þau nái samkomulagi. Nú hafa Íslandssími og Landssími Íslands hf. gert samning sem er mjög merkilegur samningur og markar alveg nýja tíð í samskiptum þessara fyrirtækja þannig að ég hef engar áhyggjur af því. Hins vegar komum við stjórnmálamenn ekki í veg fyrir deilur á markaði milli fyrirtækja sem eru í samkeppni. Það er algjör misskilningur ef hv. þm. heldur að okkur sé mögulegt að gera það. Ég tel afar mikilvægt að vekja athygli hv. þm. á því að það er sitt hvað að reka vegakerfið og svo hins vegar gagnaflutnings- og línulagnakerfi. Ég vakti athygli á því að frv. gengur allt út á að búa til reglur þannig að í landinu séu skýr ákvæði, skýr lög um aðgang að þessum kerfum og samkeppni og það er fyrst og fremst okkur öllum til hagsbóta. Ég vona að hv. þm. átti sig á þessu þegar fram líða stundir í þessari umræðu.