Horfur í orkuframleiðslu í vetur

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 13:45:51 (1281)

1999-11-11 13:45:51# 125. lþ. 23.93 fundur 133#B horfur í orkuframleiðslu í vetur# (umræður utan dagskrár), GÓ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Gunnar Ólafsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar er háalvarlegt og getur haft víðtæk áhrif. Það að hækka verð á raforku þannig að fyrirtæki sjái sig tilneydd til að fara að nota olíu er algerlega óviðunandi, ekki síst út frá umhverfissjónarmiðum. Ég get tekið sem dæmi loðnuverksmiðju síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þar var fyrir fáeinum árum fjárfest í dýrum rafskautakötlum til framleiðslu á gufu. Þetta var gert á þeim tíma þegar framboð á ótryggri orku var nægjanlegt og verðið tiltölulega lágt og jafnframt var þetta liður í að mæta þeim kröfum í mengunarvörnum sem fiskimjölsverksmiðjum eru settar.

Þegar síðan verð orkunnar hækkar standa stjórnendur fyrirtækisins frammi fyrir því hvort þeir eigi að skipta yfir í olíu eður ei. Ég átti í morgun samtal við starfsmenn síldarvinnslunnar og var mér tjáð að enn er gufan framleidd með rafmagni, en á hærri taxta en verið hefur og er það eingöngu hátt verð á svartolíu sem kemur í veg fyrir að þeir skipti. Þessi aukni rekstrarkostnaður þýðir að sjálfsögðu verri rekstrarafkomu, þ.e. minni gróða eða aukið tap þar sem slíkt er.

Annað dæmi, herra forseti, er kyndistöðin í Neskaupstað. Hún er í dag keyrð á rafmagni en eftir samtal við bæjartæknifræðing Neskaupstaðar er ljóst að það er fyrst og fremst út af umhverfissjónarmiðum sem hann skiptir ekki yfir olíu. Þetta má síðan setja í víðara samhengi og nægir þar að nefna aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hina margumræddu Kyoto-bókun. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagst gegn virkjunum í þágu mengandi stóriðju eins og fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun er.

Það er mín skoðun, herra forseti, að þegar virkjað er, hvort sem það er stórt eða smátt, þá eigum við að skoða á hvern hátt við getum raunverulega dregið úr losun gróðurhúsalofttegundanna. Ein leið er að verðleggja forgangsraforku þannig að hagkvæmt verði fyrir fyrirtæki eins og fiskimjölsverksmiðjur að fjárfesta í rafskautakötlum og tryggja þeim rekstrarumhverfi sem ekki er háð heimsmarkaðsverði á svartolíu.