Horfur í orkuframleiðslu í vetur

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 13:48:19 (1282)

1999-11-11 13:48:19# 125. lþ. 23.93 fundur 133#B horfur í orkuframleiðslu í vetur# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál var tekið upp. Ég tel að það sýni það sem oft hefur reyndar komið fram að stefnan er sú sama og hún hefur verið fram að þessu. Hún er allt önnur gagnvart stóriðjufyrirtækjunum en hinum almenna iðnaði í landinu. Það er ömurlegt að ekki skuli hafa tekist enn þá að koma til móts við þá notkun rafmagns sem almenningur og almennur fyrirtækjarekstur í landinu hefur.

Ég tel að stórátak hefði þurft að gera í þessu. Við höfum séð að t.d. járnblendifélagið sem hefur verið rekið í æðimörg ár hefur borgað svo lágt rafmagnsverð að alveg klárt mál er að það hefur verið tap á því að selja því raforkuna. Þegar átti síðan að láta reyna á það í eitt skipti, og það var í fyrrahaust, að þar væri um afgangsraforku að ræða þá komu allir af fjöllum og urðu bara steinhissa, það ætti að fara að draga úr afhendingu á raforku til þessa fyrirtækis. Þó hafði það samninga sem byggðust á því að hægt væri að draga úr raforkuafhendingu til fyrirtækisins. Það var verið að selja forgangsraforku á lægsta prísinum sem fyrirfannst í kerfinu í rauninni allan þennan tíma. Menn þurftu ekki að hafa áhyggjur af því. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, því að skilja mátti orð hans svo, hvort rétt sé að að einhverju leyti sé verið að lækka raforkuverð til stóriðjufyrirtækja núna og ég vil einnig spyrja: Hver er þá munurinn á þeim lækkunum sem verið er að framkvæma til stóriðjufyrirtækja og til fyrirtækja Íslendinga, þ.e. almennra iðnaðarfyrirtækja?