Horfur í orkuframleiðslu í vetur

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 13:58:39 (1287)

1999-11-11 13:58:39# 125. lþ. 23.93 fundur 133#B horfur í orkuframleiðslu í vetur# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[13:58]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Það er alveg makalaust hvernig hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson leyfir sér, og ekki í fyrsta skipti hér í þingsölum, að drepa málum á dreif sem komið er fram með. Ef hann hefði hlustað grannt eftir hvað ég var að segja, þá er ég að lýsa eftir stefnu en ekki munnhöggvast um stefnu flokka. Ég er að lýsa eftir stefnu í umhverfismálum og stefnu í orkubúskaparmálum. Ég var ánægður með svör hæstv. iðnrh. sem hann gaf um þessi mál. En það sem stendur upp úr er að við höfum ekki unnið heimavinnuna okkar í þessum málum. Hæstv. ráðherra upplýsti að ekkert yfirlit er til og menn hafa ekkert farið í þá vinnu að skoða hvernig staða mála er hjá íslenskum iðjuhöldum eða iðnrekendum. Um það snýst málið og mitt markmið er að vekja athygli á því og fá menn til að hugsa um það hvort hugsanlegt sé að við séum með rangar áherslur, hvort við séum að gera eitthvað rangt. Það eru mjög margir þeirrar skoðunar að stóriðjudæmið sé ekki það sem er hagstæðast fyrir íslenskan þjóðarbúskap og margir sem hafa sýnt fram á það með tölulegum rökum.

Við vitum vel að stóriðjan borgar ekki nema 14--18 mill fyrir kwst. En við vitum líka af upplýsingum frá Landsvirkjun að það kostar 22 mill að framleiða kwst. Þá er spurningin þessi, sem er meginmál en ekki smáatriðahjakk, hvort við séum virkilega komin í þá stöðu að við sjáumst ekki fyrir í því sem við erum að gera og við séum að haga orkubúskaparmálum þannig að mismunurinn vegna lágrar verðlagningar til stóriðju sé keyrður inn á þessar perur og landsmanna allra sem stunda iðnað en ekki stóriðjufyrirtækjanna. Þetta er meginmálið. Ef menn skoða innanríkismálin og komast að þeirri niðurstöðu í víðu samhengi, þá þarf að breyta stefnunni hvað varðar stóriðjuuppbygginguna og það er það sem vinstri grænir hafa lagt áherslu á.