Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 14:04:10 (1289)

1999-11-11 14:04:10# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, LB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er nokkuð umliðið síðan þessi umræða fór fram. Henni var frestað fyrir um það bil rúmri klukkustund síðan og þá var ég á mælendaskrá. Það eru nokkur atriði sem ég vildi nefna í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi vil ég taka undir með hæstv. samgrh. og fleirum sem hér hafa talað að frv. sem við ræðum er að mörgu leyti til mikilla bóta og án efa skref fram á við hvað varðar fjarskiptamálefni. Þó eru þessi orð sögð, eins og ég tók fram í morgun, virðulegi forseti, með þeim fyrirvara að við höfum ekki fengið inn á okkar borð frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun sem er til fyllingar þessu frv. og önnur meginstoð í þeim lagaramma sem fyrirhugað er að búa til þannig að það eiga reyndar eftir að koma fleiri upplýsingar inn í þessa umræðu.

Virðulegi forseti. Hins vegar gerðu nokkur atriði í ræðu hæstv. ráðherra það að verkum að ég óskaði eftir því að fá að taka til máls einu sinni enn. Það er í fyrsta lagi sá þankagangur sem birtist í orðræðu hans og var einhvern veginn á þá leið að einhver tegund af sósíalisma eða ríkisforsjá fælist í því að aðskilja grunnnetið frá Landssímanum, þ.e. ef það yrði hugsanlega í eigu ríkisvaldsins. Nú liggur alveg fyrir, virðulegi forseti, að það er ekki arðsamt og mun ekki verða arðsamt að tengja mikið af dreifbýlinu við þetta grunnnet þar sem ekki eru nægilegar tengingar fyrir. Það er alveg ljóst að ef menn ætla að standa við þá byggðastefnu sem menn hafa haft, þá þarf að borga með þessu. Það er mjög ólíklegt að það verði nokkurn tíma samkeppni á þessu sviði. Því snýst þetta ekki um það. Þetta snýst fyrst og fremst um að þessum dreifðu byggðum verði tryggt ákveðið samband og geti tekið þátt í þeirri upplýsingabyltingu sem er að eiga sér stað. Það er grundvallaratriði í þessu máli, en ekki hvort þetta sé selt eða ekki. Enda þegar menn ræða almennt um samkeppnismál, þá breytir litlu hvort það er einkaeinokun eða ríkisrekin einokun. Það er í sjálfu sér lítill eðlismunur á því. En mér skildist reyndar á hæstv. samgrh. í morgun að á þessu væri grundvallarmunur og hann á væntanlega eftir að útskýra það betur.

Meginástæðan fyrir því að ég bað um orðið var að hæstv. samgrh. sagði að sú nefnd sem hann setti á laggirnar hefði fyrst og fremst verið sett á fót í því skyni að kanna álit eða niðurstöðu samkeppnisráðs að því er varðar eignarhald eða ríkisaðstoð. Þetta voru nokkurn veginn orð hæstv. samgrh. Þó má vel vera að ég hafi það ekki alveg orðrétt eftir. En þessa merkingu lagði ég í orðin.

Virðulegi forseti. Það eru nokkur ár síðan Alþingi samþykkti lög þar sem ákveðinni stofnun hjá ríkisvaldinu var fengið það hlutverk að úrskurða og hafa eftirlit með ákveðnum markaði. Það var Samkeppnisstofnun. Niðurstöður hennar eru bindandi. Það liggur fyrir. Þetta er valdhafi á þessu sviði. Við á hinu háa Alþingi höfum sett þær leikreglur að þetta sé sá aðili sem fari með þetta vald. Ákvörðun þessarar stofnunar og þessa ráðs er heimilt að áfrýja til áfrýjunarnefndar. Síðan hefur það gerst æ ofan í æ að niðurstaða hennar hefur verið borin undir dómstóla. Þetta eru hinar réttu leiðir. Þetta eru þær leikreglur sem við höfum sett okkur. Þetta er kjarni málsins. Ef menn vilja hnekkja niðurstöðum hennar þá fara menn eftir þessum leiðum.

Virðulegi forseti. Í þessu tilviki var það ekki gert og það var ámælisvert og það vorum við að reyna að fá hæstv. samgrh. til að fjalla um í morgun. Í stað þess að fara þessa leið setti hann á stofn einhvers konar nefnd. Ég er með skýrsluna eða álit þessarar nefndar. Í inngangi þeirrar nefndar segir, eftir að taldir hafa verið upp hverjir hafa þar verið boðaðir til leiks, að starfshópurinn sé kallaður saman til að fjalla um niðurstöður og álit samkeppnisráðs, þ.e. samgrh. sem eigandi eða handhafi hins eina bréfs kallar eftir einhvers konar stjórnsýslunefnd til þess að endurskoða niðurstöður löglegs valds. Virðulegi forseti. Þetta er alveg grafalvarlegt mál í lýðræðissamfélagi. Það er algerlega ljóst að hér eru almennar leikreglur brotnar og það skipulag sem við höfum byggt upp. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir sneri einmitt þessari hugsun á haus í morgun. Hvernig mundu menn bregðast við því ef eigendur Tals hf. mundu í kjölfar svona niðurstöðu skipa nefnd til þess að fjalla um hvort rétt væri að fara að áliti eða niðurstöðu lögbærra aðila eða þar til bærra aðila sem hafa með það að gera að fjalla um þessi mál? Þetta er alveg grafalvarlegt mál, virðulegi forseti. Ég held að í öllum alvörulýðræðisríkjum hefði þetta mál fengið miklu meiri umfjöllun og miklu vandaðri en raun bar vitni þegar þessi óskapnaður dundi yfir okkur með sjálfan ríkisendurskoðanda, trúnaðarmann Alþingis, að vopni í þessari nefnd.

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega þetta mál sem við vorum að reyna að draga fram í morgun. Ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins úr niðurstöðu þessarar nefndar sem í þessu ljósi er kannski dálítið sérstök. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af því að ekkert verður á þessu stigi fullyrt um að Póstur og sími hf. hafi notið ríkisaðstoðar þegar Póst- og símamálastofnun var gerð að hlutafélagi, telur starfshópurinn að ekki séu efni til þess fyrir samgönguráðherra sem handhafa hlutabréfs ríkisins í Landssíma Íslands hf. að verða við þeim tilmælum samkeppnisráðs að sjá til þess að fyrirtækið haldi að sér höndum með aðgerðir ...``

Niðurstaðan er einfaldlega sú að ráðherraskipuð nefnd kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til þess að fara eftir niðurstöðu þess aðila sem er falið þetta vald í samfélaginu. Þetta er nákvæmlega kjarni málsins. Ég geri fastlega ráð fyrir því að ef þetta hefði verið til að mynda niðurstaða héraðsdóms, þá hefðu menn kannski vaknað upp við vondan draum um að það væri eitthvað meira en lítið bogið við þetta. En á þessu stigi málsins er það samkeppnisráð sem hefur úrskurðarvald og ef við ætlum að virða þær almennu leikreglur sem við setjum okkur í þessu samfélagi, virðulegi forseti, þá vinnum við ekki svona. Það er alveg klárt. Það hefði verið eðlilegra að fara eftir hinum almennu leikreglum. Svona gera menn ekki, virðulegi forseti.

Það var líka áhugavert þegar var verið að reyna að draga fram viðhorf samgrh. til þessa máls í morgun, þá nánast, ég skal ekki segja sneri út úr, fór hann undan í flæmingi og gaf ekki önnur svör en þau sem ég vitnaði til í upphafi, sem ég var að reyna að fara með og tel að ég hafi farið með nokkurn veginn efnislega rétt að þetta hafi verið ætlunin. En í þessari skýrslu er allt aðra niðurstöðu að finna og ég hef sagt það áður úr þessum ræðustóli og get svo sem ítrekað það að ekki er nóg með að þarna sé um að ræða ráðherraskipaða nefnd til þess að fjalla um niðurstöður lögbærra aðila í samfélaginu heldur situr í þessari nefnd trúnaðarmaður Alþingis, ríkisendurskoðandi. Þegar til þess kemur að við förum að ræða að nýju þetta endurmat á virði fyrirtækisins, er alveg ljóst að hv. alþingismenn geta ekki leitað til síns trúnaðarmanns vegna þess að hann er fyrir löngu búinn að gera sig vanhæfan í þessari umræðu og það er að mínu viti, herra forseti, grafalvarlegt mál þegar ráðherrar vinna með þessum hætti.