Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 14:12:41 (1290)

1999-11-11 14:12:41# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu og ég vil ítreka þakklæti mitt til hv. þingmanna fyrir ágæta umræðu og góðar undirtektir við frv. Það er afar mikilvægt fyrir mig sem samgrh. að fá þessi viðbrögð við nýju frv. um fjarskipti, svo mikilvægur þáttur sem þar er á ferðinni í þjóðfélagi okkar og snýr bæði að heimilum landsins og atvinnulífinu.

Það komu ekki mjög mörg atriði fram í ræðum þingmanna sem væri ástæða til þess að fjalla sérstaklega um nema það annars vegar að ég vildi vegna ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar víkja aðeins betur en mér gafst tækifæri til vegna takmarkaðs tíma í ræðu minni áðan, að hans ábendingum sem sneru m.a. að alþjónustu og þjónustu við skipaflotann við strendur landsins og á hafsvæðum.

Það er nauðsynlegt að vekja athygli á því að í frv. er sérstakur kafli, IV. kafli, þar sem fjallað er um alþjónustu og sértæka fjarskiptaþjónustu. Þegar talað er um sértæka fjarskiptaþjónustu er átt við fjarskiptaþjónustu sem ekki er arðbær og óumflýjanlegt er að veita með einum eða öðrum hætti styrk til. Landssíminn hefur séð um strandstöðvaþjónustuna og sjálfvirka tilkynningarskyldan er á hendi slysavarnafélagsins Landsbjargar núna. Það er reynt að sinna þessari neyðar- og örryggisþjónustu eins og kostur er. Í frv. er gert ráð fyrir að um þetta sé fjallað í þessum kafla.

[14:15]

Póst- og fjarskiptastofnun gegnir þarna mikilvægu hlutverki og rétt er að geta þess vegna umræðunnar að Póst- og fjarskiptastofnun vinnur fyrir hönd samgrn. að gerð samnings við Landssímann um strandstöðvaþjónustuna. Það er afar mikilvægt að slíkur samningur sé fyrir hendi og hann sé vel úr garði gerður og vandaður. Þarna er um miklar fjárhæðir að ræða. Gert er ráð fyrir því að hallinn á þessari þjónustu á næsta ári verði 170 milljónir og því skiptir miklu máli að þessi þjónusta sé örugg og um hana sé skýr rammi og frv. tekur á því.

Þá vil ég aðeins víkja að málflutningi hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Hv. þm. er við svipað heygarðshorn og stundum áður og hefur mikinn áhuga á því að gera Landssímann en þó aðallega samgrh. tortryggilegan. Nauðsynlegt er að rifja upp að á grundvelli samkeppnislaganna er ekki hægt að áfrýja áliti Samkeppnisstofnunar eða kæra það. Öðru máli gildir um ákvarðanir --- það er nauðsynlegt að hv. þm. átti sig á þessu --- og álit er ekki bindandi stjórnsýsluákvörðun. Það er líka afar mikilvægt að hv. þm. átti sig á því. Stóryrði um að hér sé á ferðinni atlaga að samkepnnislöggjöfinni eru náttúrlega algjörlega út úr kortinu. Ég vísa þeim á bug.

Við skulum aðeins líta á hvað þarna var um að ræða. Samkeppnisstofnun hafði uppi athugasemdir og ég fékk þann hóp sem hv. þm. vitnaði til að fara yfir málið og leggja það upp og gera tillögur um hvernig eðlilegast væri að stjórnvöld tækju á málinu. Það varð niðurstaðan. Ástæðan fyrir því að ríkisendurskoðandi var í þessum starfshópi var að Ríkisendurskoðun er endurskoðandi Landssímans. Ég taldi eðlilegt, eins og ég hef margsinnis sagt úr þessum ræðustól, og tel enn að endurskoðandi Landssímans kæmi að málinu.