Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 14:19:13 (1292)

1999-11-11 14:19:13# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[14:19]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er feginn því að hv. þm. áttar sig á því að álitið, sem um er að ræða, er ekki bindandi. Niðurstaða samgrn. --- sú niðurstaða er að sjálfsögðu á mína ábyrgð --- var sú að fallast ekki á þetta álit t.d. varðandi það atriði að færa GSM-símaþjónustuna frá almennum rekstri Landssímans og stofna um hana sérstakt félag. Ég taldi að það væri fullkomlega eðlilegt að sú ákvörðun væri á ábyrgð samgrh. og ekki væri hægt að sæta því að Samkeppnisstofnun tæki ákvarðanir um stjórnskipulag einstakra fyrirtækja eins og þarna var ætlast til.

Hins vegar taldi ég eðlilegt í ljósi þessa álits að láta fara fram skoðun á því hvort matið á Landssímanum hefði uppfyllt allar ströngustu verklagsreglur eins og þær eru í dag á hinu Evrópska efnahagssvæði. Niðurstaða hópsins, sem hv. þm. vitnaði til, var að það hefði átt að beita tekjuflæðisaðferðinni. Ég hef tekið þá tillögu til greina, hafið undirbúning og sett starfshóp í að vinna það verk og vona að niðurstaða liggi fyrir áður en langt um líður. Ég er sannfærður um það að það verk verður vel unnið og mun að sjálfsögðu vænta þess að því verki ljúki sem allra fyrst því að þeirri óvissu þarf að eyða.