Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 14:22:29 (1294)

1999-11-11 14:22:29# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst með umræðunni og ástæðan fyrir því að ég blanda mér í hana er sú að ég hef beðið eftir því að heyra frá hinum ríkisstjórnarflokknum, þ.e. Framsfl., hvað hann hefur um þessi mál að segja. Það hefur komið skýrt fram frá hæstv. ráðherra að hann stefni að því að selja Landssímann. Það hefur líka komið skýrt fram að hann stefni að því að selja hann ásamt grunnnetinu.

Nú óska ég eftir því, hæstv. forseti, að hv. formaður þingflokks Framsfl. verði beðinn að mæta í þingsal ef hann er viðstaddur. Er hann það?

(Forseti (GuðjG): Hv. formaður þingflokks Framsfl. er ekki í húsinu.)

Hæstv. forseti. Mér þykir það vont en ágætur þingmaður Hjálmar Árnason, sem situr alla þingflokksfundi Framsfl., ætti væntanlega að geta svarað þeim spurningum sem ég vil leggja fram.

Ég hef það fyrir satt að Framsfl. hafi alls ekki samþykkt að þetta fyrirtæki yrði selt, símafyrirtæki hérna á Íslandi. Ég hef það fyrir satt að Framsfl. taki það ekki í mál að grunnnetið verði látið fylgja ef einhvern tíma kæmi að þessari sölu. Ég segi: Hvernig í ósköpunum er hægt að ræða svona mál á hv. Alþingi þegar hæstv. ráðherra lýsir því yfir að þetta sé vilji hans en menn hafa ekki hugmynd um hvað samstarfsflokkurinn ætlar sér í málinu? Þurfa menn ekki að upplýsa það? Mér finnst það ekki ganga að skilja við þessa umræðu hér í dag öðruvísi en að það liggi fyrir hvort það sé samstaða um þetta.

Þetta fyrirtæki, sem hét áður Póstur og sími, hefur verið einhver mesta gullkista ríkissjóðs langt aftur í tímann. Það hefur svo sem ekkert legið á að einkavæða fyrirtækið, a.m.k. ekki út frá hagsmunum ríkissjóðs og almennra borgara. Samanburður á símgjöldum hér og í löndunum í kringum okkur ber með sér að við höfum fengið ágætis þjónustu á ágætu verði. Þar með er ekki sagt að ekki sé hægt að bæta það. En það þarf að liggja fyrir þegar menn gera þá hluti sem hér stendur til að gera, þ.e. að koma á samkeppni og einkavæðingu að við höfum eitthvað út úr því og að alvörusamkeppni myndist á þeim markaði sem búinn er til. Það liggur ekki fyrir enn þá.

Það er afskaplega veikburða það sem nú er komið upp í því máli. Eigi að búa til einhvers konar samkeppni þar sem einhverjir aðilar á þessum markaði hafa kverkatak á hinum sem eru fyrir er auðvitað ekki samkeppnisumhverfi sem er upp á bjóðandi. Menn ættu því að fara sér hægt á meðan ekki er búið að leysa þau mál vitrænt. Þess vegna skil ég vel að Framsfl. sé ekki búinn að skrifa upp á þetta allt saman. En mér fyndist líka ærin ástæða til að það kæmi þá skýrt fram í sölum Alþingis hvað menn ætla sér með þessi frumvörp. Ég kalla eftir því. Ég tel mjög nauðsynlegt fyrir þessa pólitísku umræðu um þessi mál að sjá hvað á að gera. Er það kannski angi af þessari togstreitu milli stjórnarflokkanna að ekki náðist að ræða hér bæði málin, um Póst- og fjarskiptastofnun á sama tíma og þetta mál er hér til umræðu? Ég hefði viljað fá svör við þessu. Ég verð því að óska eftir því að viðstaddir framsóknarmenn, hversu margir sem þeir nú eru, upplýsi okkur hv. þm. um þessi mál.