Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 14:29:06 (1298)

1999-11-11 14:29:06# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég endurtek að mér þykir miður að hafa ekki heyrt ræðu hv. þm. Ég fylgdist þó að mestu leyti með því sem hér fór fram en þurfti að vísu að fara í símann.

Hins vegar held ég að ég hafi fengið að vita nokkurn veginn hvað gerðist í ræðu hv. þm. Hann lýsti því nefnilega yfir, eftir því sem mér er sagt, að framsóknarmenn væru að hugsa málið. Það er út af fyrir sig ágætt. Mér finnst það samt töluverðar fréttir að stjórnarflokkur sé að hugsa málið þegar búið er að leggja fram frumvörp á Alþingi og ráðherra þeirra mála sem um er að ræða lýsir því yfir að hann haldi sínu striki, hann ætli sér að selja þetta fyrirtæki, það standi til og að grunnnetið eigi að fylgja með. Ég held að heppilegra væri að málin kæmu skýrar fram í Alþingi en þetta.