Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 14:30:27 (1299)

1999-11-11 14:30:27# 125. lþ. 23.7 fundur 103. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég flyt till. til þál. um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta Byggðastofnun gera tilraun um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu.

Verkefnið verði tilraunaverkefni til fimm ára og stutt með framlögum úr ríkissjóði.``

Í greinargerð segir:

,,Þingsályktunartillaga þessi var flutt á 123. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Hún er nú endurflutt óbreytt.

Á undanförnum missirum hafa verið mótaðar hugmyndir um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði. Áætlað er að keyrt verði á tveggja tíma fresti, frá kl. 7.00 árdegis til kl. 24.00 á miðnætti, á þremur leiðum:

1. Akureyri--Hjalteyri--Hauganes--Árskógssandur--Dal\-vík--Ólafsfjörður.

2. Akureyri--Kristnes--Hrafnagil--Laugaland.

3. Akureyri--Svalbarðseyri--Laufás--Grenivík.

Lagt er til að verkefnið verði til reynslu í fimm ár.

Helstu röksemdir fyrir tilrauninni eru:

Byggð á svæðinu styrkist með greiðari samgöngum fyrir alla íbúa.

Ungmenni sem sækja framhaldsskóla á Akureyri geta fremur búið heima.

Hagræðing verður í skólaakstri og þjónustu við stofnanir, svo sem Kristnesspítala.

Ferðamenn eiga auðveldara með að ferðast um svæðið á eigin vegum.

Aðgerðin er orkusparandi.

Málið hefur verið kynnt embættismönnum í forsætisráðuneyti og á vegum héraðsnefndar Eyjafjarðar er unnið að greinargerð og fjárhagsáætlun fyrir verkefnið.``

Eins og fram kemur var þetta mál flutt á síðasta þingi. Það var ekki útrætt en með bréfi frá samgn. Alþingis 26. nóv. 1998 var óskað umsagnar bæjarstjórnar Akureyrar um till. til þál. um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði. Nefndin óskaði þess að svar berist fyrir 19. janúar 1999. Í bókun bæjarstjórnar Akureyrar segir að bæjarstjórn telji fyrirliggjandi tillögu athyglisverða og mæli með samþykkt hennar, enda verði veitt til verkefnisins öflugt framlag úr ríkissjóði. Á þessu stigi tekur bæjarráð hvorki afstöðu til fjármögnunar né tillögu að leiðarkerfi sem fram kemur í greinargerðinni. Bókun bæjarstjórnar 15. des. 1998 var samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Af þessu er ljóst að málið sér nokkurn aðdraganda og mikil vatn hefur runnið til sjávar síðan það var fyrst flutt. Ég vil leyfa mér að ræða þessi almenningssamgöngumál í breiðara samhengi. Eins og málum er komið í dag er ekki einvörðungu um mál Eyjafjarðar að ræða, heldur er brýn nauðsyn á að allt almenningssamgöngukerfi landsins verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Á allra síðustu mánuðum berast upplýsingar um að æ fleiri sérleyfishafar séu að gefast upp á rekstrinum, jafnvel stórir aðilar í greininni eru gefast upp. Ég tel að meginástæðan fyrir því að svo er komið sé þröngsýni og andvaraleysi opinberra aðila sem hafa engan veginn áttað sig á nauðsynlegri þróun í uppbyggingu samgöngukerfis fyrir almenning í svo stóru landi. Það er mergurinn málsins.

Það kom fram í ræðu hæstv. samgrh. hér um daginn að hann hefur sett af stað vinnu, mig minnir að Háskóli Íslands sé að búa til greinargerð um almenningssamgöngukerfi landsins. Það er vel og styrkur í þessari umræðu. Ég vil áður en lengra er haldið þakka fyrir að hæstv. samgrh. situr hér og hlustar á mál mitt og einnig varaformaður samgn. sem ég tel mjög mikilvægt.

Sem innlegg í málið vil ég líka segja að heima fyrir var þetta talið það athyglisvert mál að héraðsnefnd Eyjafjarðar lagði fram fé og fékk Rekstur og ráðgjöf á Akureyri til að gera úttekt á málinu, úttekt á samgöngukerfi í Eyjafirði á grunni þessarar þáltill. sem sett var fram sl. haust. Í framhaldi af greinargerð sem Rekstur og ráðgjöf hf. á Akureyri skilaði, vann héraðsnefnd Þingeyjarsýslu aðra greinargerð fyrir svæðið austur um, þ.e. Akureyri og Þingeyjarsýslur. Hér er því kominn grunnur að ígrunduðu almenningssamgöngukerfi með nútímayfirbragði til þjónustu fyrir nútímafólk á Eyjafjarðarsvæði, frá Ólafsfirði í norðri um Akureyri austur á Mývatn, Húsavík, Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn.

Það er nauðsynlegt að taka þessi mál upp í dag vegna þess að við höfum ekki endurskipulagt þau eins og ég sagði áðan. Samgöngukerfið sem nú er að hrynja er áratugagamalt og barn síns tíma. Enginn notar almenningssamgöngur lengur kvölds og morgna, þar þarf önnur meðöl. Þess vegna tel ég, sem flm. þessarar tillögu, að upplagt sé, þar sem menn eru búnir að leggja þessi mál niður fyrir sér og byggðir Eyjafjarðar standa svo vel að vígi, að gera þessa tilraun í samstarfi við þá sem þegar hafa unnið heimavinnuna og eru tilbúnir að fara í málið nú þegar. Það er mjög mikilvægt. Hvað fær Eyjafjörður út úr þessu? Ég ætla að drepa niður á helstu atriðin í greinargerðinni frá Rekstri og ráðgjöf.

Helstu hópar líklegra viðskiptavina almenningssamgöngukerfis eru framhaldsskóla- og háskólanemar, fólk sem sækir vinnu út fyrir heimabyggð og ferðamenn auk almennings. Auk þess er hugsanlegt að kerfið geti nýst til hagræðingar í akstri grunnskólanema. Rekstrarkostnaður kerfisins miðað við þær forsendur sem byggt er á er áætlaður 34--37 millj. á ári.

Rekstrartekjur er erfitt að meta nema af fenginni reynslu en þó er líklegt að greiða þurfi með rekstrinum líkt og nær algilt er varðandi rekstur sem þennan. Við mat á rekstrargrundvelli kerfisins verður einnig að taka til greina þann kostnað sem sparast með tilkomu kerfisins, kostnað sem tveir stórir vinnustaðir á svæðinu þurfa að bera vegna aksturs vinnuafls auk kostnaðar sem sveitarfélög bera af núverandi almenningssamgöngum milli Ólafsfjarðar og Akureyrar, sem nemur hátt í 6 millj. kr. Til viðbótar verður að taka inn í myndina mögulega hagræðingu í akstri grunnskólanema. Almenningssamgöngukerfið um Eyjafjarðarsvæðið er skref í átt til mótunar öflugrar heildar sem skapar sterkt mótvægi við höfuðborgarsvæðið þar sem fólk hefur fjölbreyttara atvinnuúrval, öflugri og betri þjónustu, meira frelsi til búsetuvals.

Almenningssamgöngur eru mikilvægur hluti eflingar Eyjafjarðarsvæðisins sem ferðamannasvæðis. Gerð er tillaga um að boðinn verði út rekstur almenningssamgöngukerfis í tilraunaskyni, slík tilraun yrði á vegum sveitarfélaganna á svæðinu og með stuðningi hins opinbera. Lágmarkstími tilraunarinnar ætti að vera um fimm ár. Að loknum reynslutíma skal árangur tilraunarinnar metinn og ákvörðun tekin um framhaldið.

Í skýrslu frá Rekstri og ráðgjöf er ýtarlega farið yfir möguleika á leiðum, tíðni ferða o.s.frv. en þó ævinlega miðað við að ferðir séu margar, þ.e. frá kl. 7 á morgnana til kl. 12 á kvöldin alla daga vikunnar. Þetta er mjög mikilvægt fyrir svæðið og mun setja gera það að einni heild, sérstaklega hvað varðar framhalds- og háskólanema, sem munu geta búið í heimahúsum. Við erum að tala um nemendur í fiskvinnslu- og stýrimannanámi á Dalvík, nemendur við Háskólann á Akureyri, vinnuafl sem flæðir nú þegar um allt svæðið, t.d. er kominn stór vinnustaður á Svalbarðseyri og möguleiki á því að fleiri sæki vinnu í Ólafsfirði, Dalvík og til Akureyrar o.s.frv. Stóri punkturinn er e.t.v. ferðamannaþjónustan en það gildir um landið í heild sinni þegar við tölum um nýtískualmenningssamgöngukerfi. Inn í þetta koma grunnskólarnir þar sem skólaakstur er um allar sveitir héraðsins og getur tengst almenningssamgöngum um svæðið. Auðvitað getur svo almenningur nýtt sér svona almenningssamgöngur til þess að auðvelda sér að sækja afþreyingu, fara í verslanir, heimsóknir o.þ.h. Svo má ekki gleyma síðasta hlutanum, draumnum um að menn leggi einkabílnum og þetta sé orkusparandi aðgerð.

Þessu teljum við mjög mikilvægt að ná fram og teljum mikils virði að gera tilraunina á Eyjafjarðarsvæðinu þar sem telja má að góður rekstrarlegur grundvöllur sé fyrir henni. Eins og Rekstur og ráðgjöf kemst að þá mætti áætla að til þurfi framlög á bilinu 12--18 millj. kr. Í þeirri upphæð eru peningar sem nú þegar eru settir í samgöngur eins og fram kom fyrr í ræðu minni, sem Dalvíkurbyggð leggur fram, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri vegna keyrslu á Kristnessjúkrahús og einkafyrirtæki vegna keyrslu á vinnuafli, t.d. út á Svalbarðseyri.

Í mínum huga er þetta innlegg í nýja hugsun í almenningssamgöngukerfi fyrir Ísland. Við höfum gleymt því að vegna kerfisbreytinga af ýmsu tagi hafa verið teknar ákvarðanir sem hafa orðið þess valdandi að samfélagsþjónusta af öðru tagi hefur hreinlega brotnað niður. Þar gæti ég t.d. nefnt kerfisbreytingar hjá Pósti og síma, nú Landssímanum, sem annast sjálfur sína keyrslu. Það var undirbygging almenningssamgöngukerfisins eins og það var byggt upp, þetta gamla kvölds- og morgnakerfi. Menn verða að opna augun fyrir því að geri þeir breytingar af þessu tagi þá getur það leitt til vandræða annars staðar. Og þá verður að taka á þeim málum.

Herra forseti. Ég vil enda mál mitt á því að segja þetta:

Það er svo undarlegt að við í þessu stóra landi, skulum ekki opna augun fyrir nauðsyn þess að styrkja og efla ,,interior``, þ.e. innanríkismál, með öflugum samgöngum. Ég tel að þarna höfum við gjörsamlega brugðist og sofið á verðinum. Þessi vinna hefði þurft að fara í gang fyrir a.m.k. fimm árum. Allar nágrannaþjóðir okkar og sérstaklega þær sem eru á svipuðum breiddargráðum eins og Noregur, Svíþjóð, Danmörk og Finnland hafa nútímavætt samgöngukerfin í dreifbýli þannig að þau þjóni nútímamanninum. Þar er ekki þetta gamla kerfi sem við öll, illu heilli, festumst í. Það er mergurinn málsins. Ég vonast til þess að þetta innlegg verði til að tilraunin verði gerð á Eyjafjarðarsvæði, þar hefur heimavinnan verið unnin. Það ætti að falla ýmsum hér í geð að undirbyggingin er ekki bara frá ráðgjafarfyrirtæki úti í bæ. Áætlun er fengin frá starfandi sérleyfishöfum og ráðgjöf frá einkareknu rútufyrirtæki sem gaf upplýsingar. Þarna eru margir möguleikar settir upp og á grunni þessara upplýsinga er allt saman ígrundað.

Herra forseti. Ég vonast til þess að þetta innlegg í almenningssamgöngur í Eyjafirði, sem ég lít á sem byrjun á endurskipulagningu myndarlegs almenningssamgöngukerfis fyrir landið, fái góða umfjöllun og tilraunin verði gerð þar sem undirbúningsvinnan hefur farið fram. Þetta er mikilvægt fyrir Ísland vegna breyttra tíma og minnkandi flugsamgangna. Næststærsta atvinnugreinin okkar, túrisminn, mun byggja á þessu að verulegu leyti. Ísland þénar ekki á túrisma með því að sýna ferðamönnum eitt horn heldur þarf alla breidd landsins. Ferðamenn þurfa að komast í alla landsfjórðunga. Ég hef lokið máli mínu og vonast til að fá góðar undirtektir.