Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 14:44:25 (1300)

1999-11-11 14:44:25# 125. lþ. 23.7 fundur 103. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[14:44]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Já, herra forseti. Hér er hreyft afskaplega athyglisverðu máli. Ég deili að mörgu leyti þeirri sýn sem fram kemur í framsöguræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar, einkum varðandi félagslega þjónustu og umhverfisþætti málsins. Það ætti ekki að koma á óvart að sveitarfélög við Eyjafjörð og héraðsnefndir skuli taka vel í málið, enda felur tillagan í sér að með tilrauninni fylgi fé frá Byggðastofnun. Ég get ekki ímyndað mér að nokkurt sveitarfélag hafni því að fá peninga frá ríkinu til þess að reka almenningssamgöngur.

[14:45]

Ýmsir sérleyfishafar komu nýlega á fund hv. samgn. og þar kom m.a. fram að mjög er farið að fjara undan rekstri þeirra á Vesturlandi, á Austurlandi sem og á Suðurlandi. Ég gæti sjálfur tekið sambærilega lýsingu úr heimahögum mínum af Suðurnesjum þar sem sérleyfisbílar Keflavíkur aka og eru að reyna að halda uppi svipaðri þjónustu og hv. þm. lýsti um Eyjafjörð. Spurningar mínar til hv. þm. eru því eftirfarandi: Hvar telur hann eðlilegt að draga mörkin og, af því að Samkeppnisstofnun og samkeppnislög koma nú æ oftar til umræðu, telur hann að tilraun sem þessi standist í rauninni samkeppnislög?

Í annan stað, ef tilraunin heppnast er þá þingmaðurinn í rauninni að boða ríkisstrætisvagna? Ljóst er að rekstur almennra strætisvagna virðist ganga afskapleg treglega eins og fram kom í ágætri framsöguræðu, m.a. vegna þess að Bjartur í Sumarhúsum er nokkuð lifandi í okkur og svokallaður einkabílismi virðist grafa undan forsendum fyrir almenningsstrætisvögnum.