Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 15:06:20 (1305)

1999-11-11 15:06:20# 125. lþ. 23.7 fundur 103. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni og stuðningi við að þessi tillaga til þingsályktunar skuli vera komin fram og þakka hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni fyrir að flytja þetta mál inn á Alþingi og vil leggja hér nokkur orð inn í umræðuna.

Það er stefna stjórnvalda að stækka og sameina sveitarfélög. Ég sé fyrir mér Eyjafjörð sem eitt sveitarfélag innan ekkert mjög langs tíma. Það eru kannski hámark tíu ár að Eyjafjörður verði eitt sveitarfélag frá Siglufirði til Akureyrar. Sveitarfélögunum sem slíkum, eða þá væntanlegu sveitarfélagi, verður það algjörlega ofviða og sveitarfélögum almennt er það ofviða að reka almenningssamgöngukerfi, strætisvagna eða hvað við viljum kalla það. Það er bara ekki gert ráð fyrir því í tekjustofnum sveitarfélaga og þau hafa nú fengið það mikið á sig og lítið af tekjustofnum á móti að þau geta aldrei gert þetta. Ég er sammála því sem hér kemur fram og kannski frekar sammála hæstv. samgrh. um það að þessi rekstur sé best kominn hjá sveitarfélögunum sjálfum með styrk eða stuðningi frá samgrn. Ég segi það alveg hiklaust að þannig verður það að koma fram.

Ég tel líka mjög mikilvægt að nota tækifærið á næstu árum til að prófa almenningssamgöngukerfi og tel einmitt Eyjafjörð frá Ólafsfirði til Akureyrar gott tilraunaverkefni í þessu sambandi. Ég sé fyrir mér að Siglufjörður mundi bætast inn í þetta almenningssamgöngukerfi þegar jarðgöngin verða komin eftir svo sem fjögur til fimm ár og þá styttist í þann sameinaða Eyjafjörð sem ég var hér að ræða um. En ég vil líka, af því það hefur ekki komið fram hér í þessari umræðu, benda á það og kannski spyrja hvort mjög íþyngjandi skattar séu ekki hluti af vandamálum við að reka svona fólksflutningafyrirtæki og kemur þá upp í huga minn þungaskatturinn og sú breyting sem gerð var á þungaskatti fyrir einu eða tveimur árum sem stórjók álögur á þessi fyrirtæki. Skyldi það ekki einmitt vera ástæðan fyrir því að þessi fyrirtæki eru öll að gefast upp á þessum rekstri? Það er skattheimta ríkisins, aukningin sem þar varð, ásamt reglum EES um ökutíma og annað, sem gerir þessum fyrirtækjum erfiðara að reka sig sjálf, ásamt ofboðslegri fjölgun á bílum landsmanna. Sennilega erum við Íslendingar bara það mikið einstaklingshyggjufólk að við teljum betra að ferðast um langan veg í bílum okkar, jafnvel þó að aðeins einn sé í hverjum bíl, í staðinn fyrir að nota svona kerfi.

Ég tek undir það sem kemur hér fram að þetta mundi auðvitað styrkja Akureyri sem miðstöð skólastarfs á Norðurlandi, ekki bara skólastarfs, heldur heilbrigðisþjónustu og annars, og styrkti Akureyri í stöðu nokkurs konar höfuðborgar landsbyggðarinnar. Slíkt almenningssamgöngukerfi mundi gera það að verkum að námsfólk sem sækir hvort heldur er Háskólann á Akureyri eða aðra skóla þar, getur meira verið heima hjá sér og það lengur og þannig styrkir það hina smærri staði við Eyjafjörð. Eiginlega má segja að þetta sé hluti af þeirri byggðastefnu sem við erum að ræða um og takast á um. Það er náttúrlega ekki nógu gott ef ýmislegt er orðið þannig í þjóðfélaginu að vonlaust sé að reka fyrirtæki eins og almenningssamgöngufyrirtæki, hvort heldur það eru strætisvagnar eða flug til hinna smærri staða. Það ógnar þessum byggðum kannski langmest ef samgöngur við þær detta algjörlega upp fyrir. Ég er ekki að segja að flugsamgöngur við Akureyri detti upp fyrir en ýmsir smærri staðir á landsbyggðinni eiga mjög í vök að verjast hvað þetta varðar og svo virðist vera að það sé ekki hagkvæmt fyrir flugfélögin að fljúga á ýmsa staði.

Ég kem upp til þess að lýsa yfir stuðningi mínum við þá hugmynd sem hér kemur fram og tek undir það sem hefur komið fram og ítreka að rætt er um þetta sem reynsluverkefni til fimm ára. Ég held að þetta sé reynsluverkefni sem muni þá nýtast á mörgum öðrum stöðum þegar farið verður að ræða þessi mál og blanda þeim saman við sameiningu sveitarfélaga. Ég sagði í upphafi og vil ítreka í lokin að það er sveitarfélögunum ofviða að gera þetta, þetta verður að gerast með styrkjum frá hinu opinbera, hvernig svo sem það verður nú. Hvort það fari beint í gegnum ríkissjóð eða Byggðastofnun er aukaatriði. En þetta verður ekki gert öðruvísi. Og sú tilraun sem hér er vitnað til á jafngóðu svæði og Eyjafjörður er, þar sem hugsanlega gæti jafnvel komið inn í á reynslutímanum að öll þessi sveitarfélög verði sameinuð, mun nýtast okkur mjög vel til þess að byggja upp kerfi af almenningssamgöngum víðar á landinu í hinum, við skulum segja sameinuðu sveitarfélögum sem eiga eftir að verða miklu fleiri, á hinum stóru svæðum til að gera íbúum þessara sveitarfélaga kleift að ferðast milli þéttbýlisstaðanna og sækja þjónustu sem þar er boðið upp á. Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna og ítreka að ég þakka fyrir að þessi tillaga hér skuli vera komin fram. Ég þakka flutningsmanni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli.