Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 15:23:21 (1307)

1999-11-11 15:23:21# 125. lþ. 23.8 fundur 115. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hér er mælt fyrir tillögu til þál. um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna, sem ég flyt ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni, Margréti Frímannsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.

Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það verkefni að tryggja betur rétt foreldra til launa í fjarveru úr vinnu vegna veikinda barna. Nefndin verði skipuð fulltrúum félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, aðila vinnumarkaðarins og samtaka um málefni sjúkra barna. Í starfi sínu hafi nefndin hliðsjón af fjármögnun, fyrirkomulagi og réttindum sem gilda um bætur fyrir launatap aðstandenda sjúkra barna annars staðar á Norðurlöndum.

Niðurstaða nefndarinnar verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi árið 2000.``

Eins og fram kemur, herra forseti, í þessari tillögu er mjög mikill mismunur á rétti foreldra vegna veikinda barna hér og annars staðar á Norðurlöndum. Þessu er lýst í grg. með þáltill. Á Íslandi eru sjö veikindadagar eru að hámarki greiddir á ári fyrir börn undir 13 ára aldri án tillits til hver sjúkdómurinn er, fjölda barna eða hjúskaparstöðu foreldra.

Í Svíþjóð eru greidd 90% launa eru greidd í 120 daga á ári fyrir hvert barn 0--16 ára.

Í Finnlandi eru greidd 66% af launum í 60--90 daga á ári og lengur vegna langsjúkra barna. Heimilt er að greiða báðum foreldrum laun ef nauðsyn krefur.

Í Noregur eru allt að 780 veikindadagar fyrir hvert barn 0--16 ára.

Í Danmörku er greidd launauppbót 90% launa til annars foreldris á meðan meðferð stendur. Launauppbót má síðan greiða í þrjá mánuði til aðlögunar fyrir barnið og foreldra eftir að meðferð lýkur.

Eins og hér sést, herra forseti, eða heyrist á þessari upptalningu er um mjög mikinn mismun að ræða og reyndar er það svo að þó að hér á landi séu einungis sjö dagar á móti t.d. 120 dögum á ári í Svíþjóð fyrir hvert barn 0--16 ára að þá eru þessir sjö veikindadagar einnig háðir ýmsum skilyrðum. Það er t.d. hér á landi skilyrði fyrir veikindagreiðslum frá atvinnurekendum vegna veikinda barna að annarri umönnun verði ekki við komið þannig að báðir foreldrar geti ekki verið heima yfir barni á sama tíma. Rétturinn tekur einungis til barna undir 13 ára aldri meðan hann er annars staðar ýmist til 16 eða 18 ára aldurs. Hér eru þessir sjö dagar einungis bundnir við börn undir 13 ára aldri og svo mætti lengi telja þann mismun sem hér er á.

Þessir mörgu veikindadagar sem eru annars staðar á Norðurlöndunum, og eru langt umfram það sem hér á landi þekkist, er stuðningur hins opinbera, þ.e. það er hið opinbera en ekki atvinnurekendur sem greiða þennan veikindarétt. Stuðningur hins opinbera hér á landi er enginn vegna slíks launataps ef undan eru skildar umönnunarbætur til að mæta útgjöldum og kostnaði vegna fatlaðra og langsjúkra barna. Enda þótt umönnunarbætur séu greiddar foreldrum langsjúkra barna má benda á að þegar meðferð barns t.d. með krabbamein lýkur lækka umönnunarbætur verulega án tillits til þess hvort foreldri, sem hætt er að vinna þegar barnið veikist, geti hafið störf að nýju. Umrædd börn þurfa oft langa aðlögun áður en þau geta lifað því sem kallað er eðlilegu lífi eftir meðferðina og sum þeirra búa við varanlegar afleiðingar sjúkdómsins.

Hið opinbera styður mjög lítið við foreldra þegar um er að ræða veikindi barna og þetta gengur þvert gegn þeirri stefnu sem Alþingi hefur samþykkt um opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar.

Með þessari þáltill. er að finna yfirlit sem var tekið saman fyrir mig af hálfu Hagstofu Íslands um kostnað hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum vegna velferðarkerfisins. Þar kemur fram gífurlegur munur. Við erum að tala hér um miklu minni veikindarétt en annars staðar á Norðurlöndunum, við erum að tala um það að greiðslur almennt, peningagreiðslur, fæðingarorlof, foreldragreiðslur vegna gæslu barna, barnabætur, meðlagsgreiðslur eru allt að helmingi lægri hér en annars staðar á Norðurlöndunum. Það fjármagn sem fer í þjónustu við börn og fjölskyldur er allt að þrefalt meira annars staðar á Norðurlöndum og þannig mætti áfram telja. Allt tal um að við séum að sliga velferðarkerfið vegna greiðslna og þjónustu við fjölskyldur í landinu er alveg út í hött.

Það er líka ástæða til þess að vekja athygli á því að þetta mál kom fyrir 123. löggjafarþing og fjöldinn allur af umsögnum barst heilbr.- og trn. sem fékk þetta mál til umfjöllunar. Segja má að þær séu að langmestu leyti mjög jákvæðar. Þær komu frá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, sem mælir með samþykkt tillögunnar, sömuleiðis Umhyggju, landlæknisembættinu, Öryrkjabandalaginu, Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna, sem ég ætla aðeins að fara nánar í hér á eftir. Sömuleiðis frá samtökunum Lífsvog, Félagi ísl. barnalækna, umboðsmanni barna, Sjúkraliðafélagi Íslands, Stéttarfélagi sjúkraþjálfara, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Dagvist barna, Sambandi sveitarfélaga, Landspítalanum, félagsráðgjöfum, Heilsugæslustöð Hlíðasvæðis, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Barnaheill og Barnaverndarstofu.

[15:30]

Allar þær umsagnir sem hér hafa verið taldar upp eru á eina lund og mæla eindregið með samþykkt þessarar tillögu. Ég vil taka fram að í tillögugreininni er ekki tekin afstaða til þess hvort kostnaður af auknum rétti vegna veikinda barna lendi á atvinnurekendum eða ríkissjóði en því skal aftur haldið til haga að hinn mikli veikindaréttur á hinum Norðurlöndunum sem er langt umfram það sem hér gerist, er greiddur af hinu opinbera.

Við þessa umræðu er einnig ástæða til að minna á tilskipun Evrópubandalagsins sem við erum komin í mikla skömm með og snertir þetta mál. Um hana er einnig getið í greinargerð með tillögunni. Á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið átti, fyrir 23. september á þessu ári, að lögfesta í öllum EFTA-ríkjunum tilskipun um foreldraorlof sem snertir mjög þessa tillögu. Hér á landi bólar ekkert á að slík tilskipun verði lögfest. Mér skilst að það sé aðallega félmrn. sem hafi með hana að gera og væntanlega einnig heilbrrn. en eftir því sem ég aflaði mér upplýsinga um í dag þá bólar ekkert á frv. um foreldraorlof þó sá tími sé liðinn sem aðildarríkjum EFTA var gefinn til að lögfesta tilskipunina.

Meginefni tilskipunarinnar sem byggð er á fyrstu kjarasamningunum sem gerðir voru á Evrópuvettvangi er að tryggja öllum foreldrum, jafnt mæðrum sem feðrum, rétt til foreldraorlofs að viðbættu fæðingarorlofi. Foreldraorlofið skal vera minnst þrír mánuðir fyrir hvert foreldri vegna hvers barns, þar með teljast frumættleidd börn og börn sem tekin eru í varanlegt fóstur og skal rétturinn gilda allt að átta ára aldri barnsins. Einstökum aðildarríkjum er gefið ákveðið svigrúm varðandi nánari útfærslur, svo sem varðandi sveigjanleika orlofstökunnar o.fl. í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Samkvæmt tilskipuninni fylgir ekki skylda til greiðslu launa í foreldraorlofi en evrópska verkalýðshreyfingin hefur áréttað að greiðslur séu forsenda þess að um raunverulegan og virkan rétt sé að ræða. Auk foreldraorlofsins er í tilskipuninni kveðið á um rétt fólks á vinnumarkaði til að hverfa fyrirvaralaust úr vinnu vegna neyðartilfella sem upp koma, svo sem vegna veikinda eða annarra ófyrirséðra forfalla fjölskyldumeðlima, barna eða maka. Greiðsluréttur fylgir ekki sjálfkrafa samkvæmt tilskipuninni. Þessi tilskipun tengist beinlínis því máli sem að hér er til umræðu.

Alþýðusamband Íslands sendi heilbr.- og trn. umsögn um tillöguna sem við fjöllum um. Þar er tekið undir efni þessarar tillögu eins og aðrir hafa reyndar gert. Þar er áréttað að réttur til fæðingarorlofs sé verulega lakari hér á landi en gerist á hinum Norðurlöndunum og almennt í Norður-Evrópu, bæði hvað varðar lengd orlofsins og þær greiðslur sem foreldrar njóta í fæðingarorlofi. Einnig er bent á foreldraorlof að viðbættu fæðingarorlofi sem þegar er þekkt víða í Evrópu og ætlað er að tryggja möguleika beggja foreldra til að taka taka leyfi frá störfum með það að markmiði að geta verið virkari í uppeldinu. Síðan er bent á þessa tilskipun, hve nauðsynlegt sé að lögfesta hana og hvernig hún geti tryggt aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir að tilskipunin um foreldraorlof sé mikilvægur liður í þróun félagsmála í Evrópu og óaðskiljanlegur hluti af þeim skuldbindingum sem Íslendingar tóku á sig á þessu sviði með aðild sinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í tilskipuninni er kveðið á um heimild launafólks til leyfis frá störfum af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem ef veikindi og slys ber að höndum og er þá ekki bara verið að vísa til óhappa sem hent geta börn viðkomandi heldur jafnframt maka eða foreldri sem viðkomandi hefur á heimili sínu eða hann ber ábyrgð á.

Herra forseti. Ég hef lauslega drepið á þessa tilskipun þó ærin ástæða væri að fara miklu nánar ofan í hana. Auðvitað er full ástæða til að ráðherrar í þessari ríkisstjórn, sem bera ábyrgð á þessu máli, svari hér á Alþingi Íslendinga hvaða ástæða er fyrir því að dregist hefur að leggja fram þessa tilskipun um foreldraorlof. Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið átti tilskipunin að vera lögfest hér fyrir 23. september sl.

Í lokin vil ég víkja að umsögn Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna sem lagt hefur gífurlega áherslu á að þessi tillaga verði samþykkt og einnig Umhyggja -- félag langveikra barna. Það er auðvitað ljóst að skjólstæðingar Umhyggju og Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna munu ekki síst njóta góðs af því ef vilji er fyrir því á Alþingi að fara í þá athugun sem þessi þáltill. kveður á um, jafnvel þó ekki væri nema til að auka eitthvað við þann rétt sem er skammarlega lágur hér samanborið við annars staðar. Í því efni er allt til bóta. En í umsögn Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna segir:

,,Umönnunargreiðslur eru nú tryggðar fjölskyldum langsjúkra barna með lögum. Það skal þó undirstrikað að þeim er einungis ætlað að bæta foreldrum aukna vinnu og aukin útgjöld sem hlýst af aukinni umönnun alvarlega sjúks barns. Þeim er með öðrum orðum ekki ætlað að bæta viðkomandi fjölskyldum það tekjutap sem þær óhjákvæmilega verða fyrir þegar foreldri hættir vinnu í óákveðinn tíma til að helga sig umönnun barnsins sem er raunin alla vega þegar um krabbamein er að ræða. Eins og sjá má í greinargerðinni með tillögunni fær launþegi hér á landi sjö daga launað frí að hámarki á hverju ári til að sinna sjúkum börnum sínum, þó aðeins ef viðkomandi barn er yngra en 13 ára.``

Ég vil skjóta hér inn að það er aðeins vegna eins barns, jafnvel þó að fjölskyldur eigi tvö börn eða fleiri þá fjölgar ekki þessum sjö dögum. Síðan segir:

,,Það má þó ekki gleymast að í landinu er fjöldi smárra hópa, t.d. fjölskyldur barna með sjaldgæfa sjúkdóma, sem vegna fámennis eru ekki í stakk búnir til að afla fjár á sama hátt og stærri félögin og eiga þar af leiðandi ekki í nein hús að venda með sín fjárhagsvandamál.``

Herra forseti. Það mælir allt með því að þessi tillaga hljóti hljómgrunn hér á hv. Alþingi. Von mín er að hún hljóti góða umfjöllun og jákvæða í þeirri nefnd sem fær hana til umfjöllunar. Ég legg til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og hv. heilbr.- og trn. að lokinni þessari umræðu.