Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 15:39:04 (1308)

1999-11-11 15:39:04# 125. lþ. 23.8 fundur 115. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þegar þessi umræða var kynnt var réttilega sagt að hér væri að hefjast fyrri umræða um málið. Ég vona að það reynist orð að sönnu og hér fari fram önnur umræða og afgreiðsla málsins. Allt of oft vill það brenna við að mál sem ekki fá góðan hljómgrunn hjá stjórnarmeirihlutanum eru svæfð í nefndum. Það er mjög mikilvægt að þetta mál sofni ekki í nefnd.

Þegar launafólk og samtök launafólks koma saman, efna til funda og móta kröfugerðir, þá ber þessi mál hátt. Ég vil segja frá því að þegar saman komu fulltrúar samtaka opinberra starfsmanna innan almannaþjónustunnar, kennarasamböndin, Bandalag háskólamanna og BSRB, var það sem hér er til umræðu mjög ofarlega á blaði. Í tillögum sem þessi samtök sem ég nefndi sendu frá sér er lagt til að lágmarksréttur til fjarvista frá vinnu vegna alvarlegra langtímaveikinda barna verði tveir mánuðir án skerðingar á launum. Þetta er sett fram í kröfum fyrir kjarasamninga. Er þar með sagt að menn séu endanlega að taka afstöðu til þess hvernig standa eigi straum af kostnaði við þessi veikindi? Nei, sjálfum finnst mér reyndar eðlilegt að almannatryggingakerfið standi straum af þessum kostnaði. En ég nefni þetta til að gera grein fyrir því að þetta er mikið kappsmál hjá samtökum launafólks.

Eins og fram kom í framsöguræðu 1. flm. þessarar þáltill., hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, eru þessi réttindi hér á landi mun lakari en gerist í þeim ríkjum sem við helst berum okkur saman við, hin Norðurlöndin. Í Svíþjóð eru 90% launa greidd í 120 daga á ári fyrir hvert barn fram að 16 ára aldri. Í Finnlandi eru greidd 66% af launum í 60--90 daga á ári og lengur vegna langsjúkra barna. Einnig er heimilt að greiða báðum foreldrum laun ef nauðsyn krefur. Í Noregi er þessi réttur enn rýmri, 780 veikindadagar og þar af full laun, 100% laun í 260 daga, 65% laun í 520 daga fyrir hvert barn að 16 ára aldri auk orlofs af greiddum sjúkrabótum í allt að 12 vikur á ári. Í Danmörku er greidd launauppbót, þ.e. 90% af launum, til annars foreldris á meðan á meðferð stendur. Launauppbót má síðan greiða í þrjá mánuði til aðlögunar fyrir barnið og foreldra eftir að meðferð lýkur.

Þetta yfirlit er eins og segir í grg. með þáltill. byggt á upplýsingum frá Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna um bætur vegna launataps aðstandenda sjúkra barna á Norðurlöndum. Eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur leggja Samtök langveikra barna að sjálfsögðu mjög ríka áherslu á að hér verði gerð bragarbót hið allra fyrsta.

Þessi þáltill. segir í reynd ekki annað en að þegar verði farið í þessa vinnu, að skipuð verði nefnd sem hafi það verkefni að tryggja betur rétt foreldra til launa við fjarveru úr vinnu vegna veikinda barna. Lagt er til að þessi nefnd verði skipuð fulltrúum félmrn., heilbr.- og trmrn., aðila vinnumarkaðarins og samtaka um málefni sjúkra barna. Í tillögunni segir enn fremur að eðlilegt sé að líta til hinna Norðurlandanna um fyrirkomulag ef hægt er að draga lærdóm af því fyrirkomulagi.

Herra forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni eitt mikilvægasta mál sem kemur til kasta þingsins. Það er mikilvægt fyrir samfélagið vegna þess að það er mannréttindamál. Það gefur augaleið að það er lífsnauðsynlegt fyrir þá sem í hlut eiga. Ég held að hér séu ekki á ferðinni himinháar upphæðir. Ég held að þetta sé ekki neitt sem setur þjóðfélagið eða efnahaginn á annan endann. Þó finnst mér að leggja mætti talsvert á sig til þess að fá þessi réttindamál í höfn. Ég held að það sé ekki mjög kostnaðarsamt að ráða bót á þessu en þetta eru mannréttindi sem þola enga bið.