Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 16:32:18 (1317)

1999-11-11 16:32:18# 125. lþ. 23.9 fundur 147. mál: #A happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., 148. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[16:32]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég get haft skammar signingar yfir efni þeirra frv. sem hér eru til umræðu. Eins og öllum hv. þm. ætti að vera kunnugt er fjárhættuspil hvers konar og rekstur spilavíta með öllu bannað samkvæmt íslenskum lögum. Það þyrfti e.t.v. að leita úrskurðar um það hjá þar til bærum aðilum hvort hér sé ekki um slíka starfsemi að tefla vegna þeirrar reynslu sem þegar hefur fengist af þessum spilavítum, sem dreift er út um öll foldar ból.

Flm. er alveg ljóst að sú ágæta stofnun Háskóli Íslands og umrædd samtök þurfa á fjármunum þessum að halda. Það réttlætir ekki að þeirra sé aflað með þessum hætti. Ef málið snerist eingöngu um það að afla fjár og menn létu sig engu skipta með hvaða hætti, þá er auðvitað hægt að hugsa sér það og huga að tillögum einstakra Heimdellinga sem hafa orðfært að hefja frjálsa sölu á kannabisefnum og eiturefnum. Það mun gefa víst afskaplega vel í aðra hönd.

Þeir sem láta undan fíkn sinni að þessu leyti eru ekki fólk sem hefur efni á því. Í örvæntingu er fólkið að leita eftir lausn á vanda sínum, fjárhagsvanda. Það sekkur ætíð dýpra og endar með ósköpum. Dæmin eru mýmörg eins og menn geta gengið úr skugga um. Þess vegna þarf að bregðast við þessu þótt seint sé. Menn sáu þetta ekki fyrir, ég minnist þess þegar þetta var til umræðu á sínum tíma. Nú þegar nefnd fær þetta til meðferðar hlýtur það að vera verkefni hennar að gera tillögur um hvernig þessi samtök fái bættan þann fjármissi sem þau verða fyrir þess vegna. Þetta eru ekki slíkar fjárhæðir að ekki séu viðráðanlegar. Ég veit að flm. og þeir sem hafa augum opin í þessu efni munu ekki telja eftir sér að gera þar um tillögur sem ná tilgangi sínum.

Þetta vildi ég sagt hafa. Dæmin eru svo hrottafengin, hvernig þessi fjárhættuspil hafa leikið fólk og það er vaxandi hörmungarástand í þessu efni. Hið háa Alþingi getur með engu móti látið sem ekki sé. Hér hafa þingmenn úr öllum þingflokkum flutt frv. og ég vona að það verði til þess að þeim sem mestu ráða verði ófært að ganga þegjandi fram hjá þessu lífshagsmunamáli.