Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 16:36:15 (1318)

1999-11-11 16:36:15# 125. lþ. 23.9 fundur 147. mál: #A happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., 148. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[16:36]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég trúi á einstaklinginn. Ég vil veg hans og frelsi sem mest. Þannig trúi ég að stuðlað sé að velsæld og hamingju flestra í þjóðfélaginu. Stundum gerist það þó að einstaklingurinn er sviptur vilja sínum og verður heltekinn af fíkn þannig að hann hefur ekki lengur sjálfstæðan vilja. Þetta gerist t.d. þegar hann ánetjast eiturlyfjum, áfengissýki eða spilafíkn. Í slíkum tilfellum tel ég, þrátt fyrir að ég trúi á frelsi einstaklingsins, nauðsynlegt að takmarka frelsi hans --- þegar hann er orðinn viljalaus. Það gerum við með því að banna eiturlyf, með því að reyna að takmarka áfengissölu og með því að banna spilavíti. Þetta eru fíknir sem taka völdin af einstaklingnum og valda þeim og fjölskyldum þeirra ómældum hörmungum og jafnvel dauða, eins og hér hefur komið fram. Þetta eru persónulegir harmleikir.

Herra forseti. Það fer illa saman að stunda háleita menntun, hjálparstarf og jafnvel baráttu gegn áfengis- og eiturlyfjafíkn með því að græða á spilafíkn. Það hlýtur að vera vanþekking á eðli spilafíknar sem veldur því að þeir sem stýra þessum samtökum skuli sækja í svo vafasama uppsprettu fjár. Þeim dytti aldrei í hug að nota hagnað af sölu eiturlyfja. Þetta hlýtur að vera vanþekking á eðli spilafíknarinnar.

En hvernig má snúa við blaðinu? Hér hefur verið nefnt að þessir aðilar verði fyrir tekjutapi. Jú, það er vissulega rétt. Þeir hafa miklar tekjur af þessu. Með spilakössum fjármögnum við bæði menntun og baráttu gegn eiturlyfjum og öðru slíku. En við ræddum fyrir nokkrum dögum um siðferði fyrirtækja og þá umræðu gætu menn nýtt sér. Fyrirtæki eru í auknum mæli að átta sig á því að þau hafa karakter. Þau gætu t.d. verið stuðningsaðilar menningar með því að byggja skólastofu í háskóla eins og gert var í Verslunarskólanum á sínum tíma. Þar áttu fyrirtæki stofur. Þau gætu líka stutt baráttuna gegn eiturlyfjum, auglýst það og notið velvildar almennings fyrir að fyrirtækið styðji baráttuna gegn eiturlyfjum. Þau gætu nefnilega velflest haft þessi markmið með það að augnamiði að öðlast þann karakter eða eiginleika að þau styði menntun og menningu eða berjist gegn eiturlyfjum og slíkum vágestum. Þannig mætti fá fjármagn til þessarar starfsemi. Þetta er bara spurningin um hugkvæmni og framtak og markaðssetningu þeirra aðila sem notið hafa þessa fjár hingað til.

En ég vil undirstrika að það er í hæsta máta ósiðlegt að menn skuli nota hagnaðinn af slíkri starfsemi til að stunda menntun, menningu og jafnvel baráttu gegn fíkn.