Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 16:50:24 (1321)

1999-11-11 16:50:24# 125. lþ. 23.9 fundur 147. mál: #A happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., 148. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[16:50]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég talaði um sýndarmennsku áðan þá sagði ég að mér þætti sýndarmennska að leggja fram tillögu sem fæli það í sér að svipta stofnanir og samtök á borð við þau sem hér eru upp talin í þessu máli tekjustofnum sínum með eins og hálfs mánaðar fyrirvara án þess að nokkuð lægi fyrir um hvar ætti að útvega þeim tekjur í staðinn. Um þetta snýst málið.

Það er grafalvarlegt ef við ætlum ekki jafnframt að leggja fram handfastar, klárar hugmyndir um það hvar þessar stofnanir og samtök eigi að fá tekjustofna á móti. Ég get ekki fallist á það með hv. þm. að best væri að það gerðist samhliða. Það er auðvitað forsenda þess að hægt sé að breyta þessum lögum, að menn finni þá aðra tekjustofna á móti.

Ég sé ekki að mönnum takist á einum og hálfum mánuði að finna leiðir fyrir þessi samtök og stofnanir sem ekki fela í sér á einhvern hátt þátttöku í happdrætti eða einhverju viðlíka, að menn séu tilbúnir til þess að finna fjármagn fyrir þessi samtök upp á 1,5 milljarða, hvort sem það er með því að sækja þá peninga út í atvinnulífið, sem vel að merkja er að leggja stórfé inn í alls konar fjöldahreyfingar, m.a. samtök sem sum hver eru nefnd hérna eins og t.d. Slysavarnafélagið eða íþróttafélög. Við vitum að atvinnulífið er undirlagt af beiðnum frá slíkum samtökum. Ég býst ekki við að þar sé feitan gölt að flá og á ekki von á að auðsótt væri núna á lokastigum fjárlagagerðarinnar að finna 1,5 milljarða úr ríkissjóði til að leggja til þessara samtaka.

Ég segi því að það er bara einfaldlega ekki frambærilegt að taka á svona máli nema að sjá fyrir endann á því. Það er auðvitað ekki bara á verksviði þeirra sem flyta frv. en hins vegar verður erfiðara en menn ætla að finna tekjustofna fyrir þessi samtök.