Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:01:43 (1332)

1999-11-12 11:01:43# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:01]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var alveg dæmalaus ræða og satt best að segja undrar mig að slík viðhorf sem fram komu í ræðu hv. þm. skuli enn vera til og birtast í þingsölum. Ég vil segja að ég er fullkomlega ósammála þingmanninum um að ráðherra sé ekki bær til þess að hafa heimild í hendi um að ákvarða hvar stofnun eigi að vera. Ég er út af fyrir sig sammála því að það er pólitísk ákvörðun. En ráðherra er pólitískt skipaður og starfar á ábyrgð stjórnmálaflokka, starfar á ábyrgð þingflokka stjórnarliðsins þannig að hann er einmitt sá aðili sem hefur pólitíska stöðu til að taka pólitískar ákvarðanir. Ég kemst því að allt annarri niðurstöðu en hv. þm. sem fann það helst málinu til foráttu að ekki væri kveðið á um það í lögunum hvar stofnunin ætti að vera.

Ég er líka algerlega ósammála því sem fram kemur í dómi Hæstaréttar og vil að það komi fram að það skuli þurfa að mati Hæstaréttar að setja lög ef stofnun eigi að vera annars staðar en í Reykjavík en það þurfi engin lög til að ákvarða að stofnun eigi að vera í Reykjavík. Þessa niðurstöðu get ég ekki fallist á fyrir mitt leyti og hef ekki getað séð nein lög í íslensku lagasafni sem gefa Hæstarétti færi á að komast að þessari niðurstöðu. Þeirri spurningu er ósvarað hvernig Hæstiréttur komst að þessari einkennilegu niðurstöðu því að honum ber að dæma eftir lögum og öðru ekki.

Ástæða væri til að gera athugasemdir við fleira í máli hv. þm. en ég vil undirstrika að frv. er einmitt skýrt, það kveður nákvæmlega á um hvernig eigi að ákvarða staðsetningu og hver eigi að gera það þannig að það uppfyllir nákvæmlega þau skilyrði sem hv. þm. taldi að þyrftu að vera fyrir hendi.