Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:03:55 (1333)

1999-11-12 11:03:55# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:03]

Mörður Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson telur að ráðherra starfi á ábyrgð stjórnmálaflokka. Hann telur að þeir starfi á ábyrgð þingflokka stjórnarliðsins. Þá er einmitt komin upp sú staða, hæstv. forseti, sem ég nefndi áðan, að ef þetta er álit hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og meiri hlutans í Alþingi og hæstv. forsrh., þá þarf ekki að kjósa Alþingi. Þá skulum við hafa lýðræðið þannig að það sé bara framkvæmdarlýðræði, það sé bara ríkisstjórnin sem sé kosin á hverjum tíma og þingið þurfi þá ekkert að gera nema, eins og ég segi, að vinna bírókratíska vinnu. Þetta er bara ósköp einfaldlega ekki þannig. Þið getið haldið það. Þið getið hagað ykkur samkvæmt því. En þetta er ekki þannig. Stjórnarskráin, stjórnskipunarverkið, gerir ráð fyrir því að ráðherra starfi á ábyrgð Alþingis. Það er Alþingi, löggjafarvaldið, sem er kosið og það er það sem veitir ráðherrunum rétt til ákvarðana, til stjórnsýsluákvarðana, til framkvæmdaákvarðana. En það er Alþingi sem tekur pólitíska ábyrgð á þeim. Það þýðir að ráðherra á ekki að taka pólitíska ákvörðun sem ekki hefur verið borin undir Alþingi og með pólitískri ákvörðun er ég ekki að tala um hvort menn ákveði að fara í framboð eða hvort menn ákveði að taka upp einhverjar flokkaskiptingar, heldur á ég við pólitíska ákvörðun samkvæmt stjórnskipulegum rétti.

Um það hvort hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er ósammála Hæstarétti eða ekki, það verður hann bara að eiga við sig. Hann getur auðvitað sent Hæstarétti tölvupóst um það mál og athugað hvað Hæstiréttur segir við hann. En Hæstiréttur hefur komist að ákveðinni niðurstöðu og ég tel fulla ástæðu til að ætla að sú niðurstaða sé mjög vel grunduð og mér sýnist hún vera það í dómi Hæstaréttar sem ég hef lesið. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur auðvitað ákveðin tækifæri til þess. Hann getur flutt frv. um það að breyta stjórnarskránni ef hann er óánægður með túlkun Hæstaréttar um hana.

(Forseti (GuðjG): Forseti vill minna ræðumenn á að það ber að beina máli sínu til forseta eða fundarins en ekki til einstakra þingmanna.)