Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:06:01 (1334)

1999-11-12 11:06:01# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:06]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ráðherrar eru ekki kosnir á Alþingi. Það fer ekki fram nein atkvæðagreiðsla um skipan ráðherra á Alþingi eins og dæmi eru reyndar um sums staðar erlendis. Væri slíkt fyrirkomulag, þá störfuðu ráðherrar á ábyrgð Alþingis. En svo er ekki. Þeir eru tilnefndir af þingflokkum og starfa á ábyrgð þeirra þannig að niðurstaða hv. þm. að þessu leyti er að mínu viti fullkomlega röng.

Ég get ekki stillt mig um að nefna eitt atriði af því að hv. þm. taldi það upp til rökstuðnings fyrir því að vera andsnúinn því fyrirkomulagi að starfsemi hins opinbera væri utan Reykjavíkur, þ.e. að það hefði áhrif á hagi starfsmanna ef stofnun eða verkefni væru flutt. Gott og vel.

Herra forseti. Má ég aðeins biðja forseta um að hlutast til um að hv. þm. sem ég er í andsvari við fylgist með fundinum. Ég tel það óvirðingu við þann sem veitir andsvar þegar sá þingmaður sem andsvar er veitt við sýnir augljóslega að hann vill ekki hlusta á það sem fram er borið.

(Forseti (GuðjG): Forseta virðist að hv. þm. sé tilbúinn að hlusta á ræðumann.)

Ég þakka herra forseta fyrir. Ef það er niðurstaða hv. þm. að leggjast gegn breytingu af því að breytingin hefur áhrif á hag starfsmanns, þá vil ég rifja upp annað mál sem hv. þm. kom mikið að á sínum tíma ásamt mér í öðrum stjórnmálaflokki en við störfum í núna, þ.e. átök um frjálst framsal veiðiheimilda. Um það var tekist á fyrir nokkrum árum. Þá hafði hv. þm. þá afstöðu að framsal veiðiheimilda ætti að vera frjálst og hefur væntanlega þá afstöðu enn. Sú ráðstöfun hefur augljóslega mikil áhrif á hagsmuni fólks sem starfar í atvinnugreininni og margítrekað hefur sú staða komið upp, en hv. þm. styður það samt. Og hver er þá niðurstaðan? Hún er sú að þegar þeir sem starfa hjá hinu opinbera eiga í hlut, þá styður hv. þm. Mörður Árnason hagsmuni þeirra. En þegar í hlut á fólk sem starfar í sjávarútvegi, þá gefur hann ekki mikið fyrir hagsmuni þess og það er dálítið merkileg niðurstaða.