Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:08:32 (1335)

1999-11-12 11:08:32# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:08]

Mörður Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa lent í stuttum samræðum úti í sal en ég náði nú meginkjarnanum í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar.

Það er misskilningur hv. þm. að ég leggist gegn breytingum á forsendum starfsmanna, það geri ég ekki. Ég sagði ekkert um það. Ég sagði að ýmsar slíkar breytingar væru góðar. Ég benti á leiðir til þess, færa mætti einstök verkefni og benti á upplýsingatæknina. Meginmál mitt var hins vegar að Alþingi á að taka þessa pólitísku ákvörðun. Af hverju á Alþingi að gera það? Hæstv. forseti. Það virðast ekki allir þingmenn hafa kynnt sér stjórnarskrána sem þeir hafa þó lagt við drengskaparheit. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson heldur því fram að ráðherrar séu ekki kosnir á Alþingi, það er rétt. En Alþingi býr við þingræði, það gerir þjóðin. Alþingi getur að myndaðri ríkisstjórn fellt þá ríkisstjórn og þá getur sú ríkisstjórn ekki lengur setið. Það er grunnregla þingræðisins, hæstv. forseti, sem ég tel að Alþingi ætti kannski að kynna hv. þm. betur.

Um samhengi þessa máls við framsal í sjávarútvegi ætla ég ekki að hafa mörg orð. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson styður gjafakvótakerfið og er þar með ábyrgur fyrir því raski og umróti sem orðið hefur vegna sjávarútvegsmála og gjafakvótakerfisins undanfarin 15 eða 16 ár og við skulum bara ræða það síðar, hæstv. forseti, hvaða réttlæti felst í því og hver afstaða manna er í því máli.