Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:10:34 (1336)

1999-11-12 11:10:34# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:10]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason kom víða við en ég vil staldra við eitt á þeim stutta tíma sem ég hef. Ég held að menn verði að átta sig á því og við hér í þingsölum að við erum kannski að súpa seyðið af því að hafa flutt kansellíið frá Kaupmannahöfn á sínum tíma hingað á Austurvöll. Þess vegna erum við nú að bíta úr nálinni með að svo stutt er á milli þings og framkvæmdarvalds. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann geti ekki verið sammála mér í því að það geti verið meginástæðan fyrir ofvexti framkvæmdarvaldsins á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef löngum verið talsmaður þess að flytja stjórnsýslu út á land og auka vægi sveitarfélaga og héraða í stjórnsýslunni. Við verðum hins vegar að horfast í augu við að hið stutta bil á milli framkvæmdarvalds og þings hefur háð íslenskri stjórnsýslu um áratuga skeið. Þetta er ekki bara íslenskt fyrirbrigði vegna þess að í langflestum löndum, sem lotið hafa stjórn annarra landa og fengið sjálfstæði nú á síðustu áratugum, hafa þessi vandamál komið upp. Þar hefur staða þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu verið veik. Ég get tekið undir að einmitt þessi mál þurfi að ræða á alvarlegum nótum. Það eru ýmsar leiðir til þess. Þrátt fyrir það tel ég að frv. gefi ýmsa möguleika ef hugur fylgir máli, á þeim nótum sem ég er að ræða um.

Ég tel að þessi óljósu skil hafi haft alvarleg áhrif á íslenska stjórnsýslu og leitt til þess að stjórnsýslan, framkvæmdarvaldið í höfuðborginni, sem við öll viðurkennum að þarf að verða stór og sterk, hafi vaxið út yfir allan þjófabálk.