Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:12:27 (1337)

1999-11-12 11:12:27# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:12]

Mörður Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég get á margan hátt tekið undir með hv. þm. Skilin milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds hafa mjög lengi verið óskýr hér á landi og það kann að eiga sér sögulegar ástæður. Ég er líka sammála honum um, eins og fram kom í ræðu minni, að einna áhrifaríkasta byggðastefnan sé að flytja verkefni frá ríkisvaldinu til héraðs og sveitarstjórna. Ég sagði að það hefði kannski verið stærsta skrefið sem stigið hefði verið í byggðamálum undanfarinn áratug.

Ég tel hins vegar að það sé eðlilegt að höfuðborgin, sem heitir höfuðborg þó að sé hvergi skýrt í lögum, búi við að hreinar ríkisstofnanir, stofnanir framkvæmdarvaldsins, dómsvaldsins og löggjafarvaldsins séu í Reykjavík. Það þýðir ekki að ekki megi flytja einstök verkefni þeirra þangað sem hægt er að vinna þau og henta þykir að hafa þau.

Hins vegar verður höfuðborgin að vera höfuðborg. Við verðum að hafa ,,system i galskabet``, herra forseti.