Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:15:13 (1339)

1999-11-12 11:15:13# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:15]

Mörður Árnason (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að karlarnir mínir í Þingeyjarsýslu hafi haft nokkuð fyrir sér í þessu þó að þeir orðuðu hlutina skýrt. Auðvitað var um það að ræða að þeir voru að rísa upp gegn miðstýringu sem hafði táknmynd sína í Reykjavík. Það sem hristi mig til var það að talinu um Reykjavíkurvaldið og hið illa í Reykjavík var stefnt gegn miðstýringu í ríkiskerfinu og á ýmsum öðrum sviðum en það breiddist út yfir fólkið í Reykjavík, yfir borgarbúa í Reykjavík sem eru í raun og veru alveg í jafnmikilli fjarlægð frá þessu valdi og fólk úti á landi.

Ég tek undir að ein af ástæðunum er mikil miðstýring í stjórnkerfi okkar, miðstýring sem við höfum aðeins verið að stíga skref frá núna og ég tel að við eigum að halda því áfram, það séu bæði hagsmunir höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar að gera það. Ég held að við eigum fyrst og fremst að reyna að koma verkefnum af ýmsu tagi frá ríkisvaldinu til sveitarstjórnanna, til félagasamtaka og til annarra og þannig muni menn nálgast það að ákvarðanir séu teknar sem allra næst vettvangi sem er góð regla, jafnvel þó að hún sé frá Evrópusambandinu, hæstv. forseti.