Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:16:50 (1340)

1999-11-12 11:16:50# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:16]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. um Stjórnarráð Íslands. Þá er fyrst að spyrja um hvað málið snýst. Snýst það um átök milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar í þeim skilningi að á höfuðborgarsvæðinu er þungamiðjan í stjórnsýslu landsins og margar helstu opinberar stofnanir og áhugi margra landsmanna að flytja þær út á landsbyggðina, snýst málið um þetta efni? Nei, það snýst ekki um það.

Ég er t.d. þeirrar skoðunar að það geti verið rétt að flytja stofnanir ef svo ber undir frá Reykjavík út á landsbyggðina. Það hefur iðulega verið gert, menn hafa varla tekið eftir því. Lánasjóður landbúnaðarins var fluttur á Selfoss. Ég kann ekki söguna þar að baki, hún kann að vera fróðleg, en hér í þingsal varð hún mjög stutt. Þetta var samþykkt nánast án umræðu, ég held að ekki nokkur maður hafi lagst gegn því.

Hins vegar er ýmislegt að gerast núna í tækninni sem opnar okkur leiðir til að flytja starfsemi til í landinu. Ég held nefnilega að sú hugsun að flytja stofnanir og rífa þær upp með rótum, oft með slæmum afleiðingum, sé úrelt. Við eigum að hugsa þessi mál á allt aðra lund. Við eigum að velta því fyrir okkur hvort, hvenær og hvernig hægt er að flytja starfsemi til.

Þess má geta að efh.- og viðskn. heimsótti ríkisskattstjóraembættið í morgun. Þar var okkur gerð grein fyrir nýjum vinnuaðferðum í því embætti, hvernig embættið hefði tekið tölvutæknina í þjónustu sína. Ríkisskattstjóri var spurður um breytingar á mannahaldi þessu samfara og þar kom í ljós að þetta breytti áherslum innan embættisins. Ýmis störf kynnu að leggjast af, önnur ný kæmu til sögunnar. Þau hefðu komið til sögunnar fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu en síðan bætti ríkisskattstjóri við að einmitt þessi tækni, tölvutæknin, gerði það mögulegt að flytja starfsemi hvert sem er á landinu ef því væri að skipta. Það er á þennan hátt sem við eigum að hugsa þessa hluti.

En um hvað snýst þetta mál þá? Þetta snýst um það að lögfesta geðþóttavald ráðherra.

Hv. þm. Mörður Árnason rifjaði réttilega upp að þegar eitt umdeildasta mál, sem varðar flutning á ríkisstofnunum, kom til umræðu á Alþingi, Landmælingar Íslands sem voru fluttar frá Reykjavík til Akraness, þá sagði Guðmundur Bjarnason, reyndar man ég ekki hvort hann sagði það í þessum ræðustól því að hann forðaðist að ræða þetta mál á Alþingi, en hann sagði við starfsmenn á opinberum vettvangi að þetta væri einfaldlega pólitísk ákvörðun.

Það er alveg rétt, það er það að hluta til. Þegar hann var spurður um rök í málinu, hagkvæmnina, kostnaðinn, afleiðingar fyrir starfsemina, fyrir notendur, fyrir starfsfólk vék hann sér undan því að ræða þessi mál og sagði: Þetta er pólitísk ákvörðun.

Hvar á að ræða pólitískar ákvarðanir? Það á að ræða þær hér, það á að ræða þær á Alþingi vegna þess að þær eru pólitískar. Það er mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi og að sjálfsögðu grundvallarþáttur og undirstaða þingræðisins að hægt sé að draga menn til pólitískrar ábyrgðar fyrir gerðir sínar. Ekki bara endanlega í kosningum heldur einnig í umræðum, að við högum málum þannig að menn þurfi að færa rök fyrir máli sínu, að menn komist ekki upp með að segja: Þetta er pólitísk ákvörðun, ykkur kemur þetta ekki við. Um það fjallar málið, það fjallar ekki um neitt annað.

Það sem slagurinn stóð um varðandi Landmælingar var að fá slíka umræðu um málið, kosti þess og galla að flytja Landmælingar Íslands frá Reykjavík til Akraness. Þá gat vel svo farið að það yrði meiri hluti fyrir því að samþykkja slíkan flutning eftir rökræðu á Alþingi. En við vildum fá þá rökræðu á Alþingi.

Það mál var mjög óþægilegt. Nú ætla menn að koma sér hjá því að þurfa nokkru sinni að ræða flutning á stofnunum hins opinbera með þessu litla frv. sem er lítið í þeim skilningi að það rúmast nánast á einu blaði en stórt í þeim skilningi að það getur haft miklar afleiðingar fyrir fjölda fólks. Það gerði það svo sannarlega hvað varðar flutninginn á Landmælingum Íslands.

Ég ætla ekkert að fara inn í þá umræðu, um kosti þess og galla að flytja Landmælingar Íslands á sínum tíma frá Reykjavík til Akraness. Það er allt önnur umræða. Umræðan núna snýst um þingræðið í landinu og þá tilburði ríkisstjórnarinnar til að draga úr lýðræðislegri umræðu, umræðu hér á Alþingi, koma sér hjá því að ræða málin.

Ég vitna aftur í dæmið um Lánasjóð landbúnaðarins sem var fluttur nánast án umræðu vegna þess að það var ekki umdeilt, a.m.k. ekki í þessum sal. Ég kann ekki þá sögu hvað þar bjó að baki en hér gekk þetta fyrir sig á fáeinum mínútum og þannig yrði það þegar ekki væri um umdeild mál að ræða. Á endanum yrði það væntanlega þessi sami stjórnarmeirihluti sem mundi hafa sitt í gegn samkvæmt reynslunni, því miður. Því miður er það svo að þingið lætur ráðherravaldið oft og tíðum teyma sig út í fenið, oft gegn sannfæringu manna hef ég á tilfinningunni. Það gerist allt of oft. En um það snýst málið.

Þegar það kom til kasta Alþingis síðast var það sent til umfjöllunar, þar á meðal hjá samtökum launafólks. Reyndar var það svo í umsögn Alþýðusambands Íslands að talið var að með frv. væru stjórnvöld að tryggja viðkomandi ráðherra fullnægjandi lagaheimild en jafnframt segir síðar í álitsgerð ASÍ að virða beri lög og samningsbundin réttindi og hagsmuni starfsfólks þeirra stofnana sem kemur til álita að flytja. Með öðrum orðum, Alþýðusambandið lagðist ekki gegn þessu og taldi að hér væri á ferðinni fullnægjandi heimild en jafnframt vísað í lög og samningsbundin réttindi.

Hér kemur að álitsgerð sem kom frá samtökum opinberra starfsmanna BHM og BSRB. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Hæstiréttur hefur skýrt stjórnarskrárákvæði um staðsetningu ríkisstofnana svo að ákvörðun um aðsetur ríkisstofnana væri þess eðlis að um hana skyldi mælt í lögum.``

Hér er með öðrum orðum ekki aðeins skírskotað til flutnings stofnunar, lög frá Alþingi eins og frv. gerir ráð fyrir ,,geta ekki breytt fordæmisreglu Hæstaréttar sem byggð er á stjórnarskrárákvæði.``

Þetta segir m.a. í álitsgerð BHM og BSRB. Enda þótt Alþýðusambandið sjái eða telji að þarna sé verið að veita fullnægjandi lagalega heimild þá er jafnframt í álitsgerð Alþýðusambandsins vísað í lög. Þegar komið er að því að túlka lögin þá telja BSRB og BHM að hér sé um stjórnarskrárbundin ákvæði að ræða. Þarna er a.m.k. á ferðinni álitamál sem þyrfti skoðunar við og í álitsgerð sinni segja BSRB og BHM á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Hvað sem öðru líður er um að ræða mjög viðamikið mál sem ræða þarf heildstætt við heildarsamtök opinberra starfsmanna og er því augljóst að ekki eru efni til annars en þetta frv. sé lagt fram til kynningar á yfirstandandi löggjafarþingi. BHM og BSRB lýsa sig reiðubúin til slíkra viðræðna á heildstæðum grunni í tengslum við endurskoðun á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, enda taki tillögurnar mið af framangreindum stjórnskipunarlegum sjónarmiðum.``

Undir rita Svanhildur Halldórsdóttir fyrir hönd BSRB og Gísli Tryggvason fyrir hönd BHM.

Þessu boði hefur ekki verið tekið eins og eflaust mun koma fram í svari hæstv. forsrh. hér á eftir við spurningum hv. þm. Marðar Árnasonar og er það miður að það skyldi ekki hafa verið gert fyrst menn eru staðráðnir í að leggja þetta aftur fyrir Alþingi.

Í lokin vil ég segja að ég hvet til þess að þetta mál verði skoðað mjög rækilega. Sjálfur leggst ég mjög eindregið gegn því að það verði samþykkt. Ég tel að með þessu séum við að veikja Alþingi. Við erum að veikja Alþingi, við erum að styrkja geðþóttavald ráðherranna, við erum að gera það. Dæmin sanna að þetta er til ills hvað þetta tiltekna málefni snertir, flutning á ríkisstofnunum. Ég held að það hefði ekki verið til skaða nema síður sé að málefni Landmælinga Íslands hefðu fengið umfjöllun á Alþingi og reyndar á það einnig við um fleiri stofnanir, t.d. Byggðastofnun. Það hefði verið eðlilegt að ræða flutning hennar hér á Alþingi. Reyndar eftir á hyggja skal ég ekki fullyrða um að það hafi ekki verið gert en a.m.k. var sá flutningur gagnrýndur. En ég mæli gegn því að þetta frv. til laga um Stjórnarráð Íslands verði samþykkt.