Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:30:25 (1341)

1999-11-12 11:30:25# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, EKG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:30]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er áhugavert að velta því aðeins fyrir sér, sem umræðan gefur fullt tilefni til, hvernig skipta eigi verkum annars vegar milli löggjafarvaldsins og hins vegar framkvæmdarvaldsins. Síðan er mjög auðvelt að halda áfram að þróa umræðuna frekar eins og hér hefur verið gert að nokkru leyti og velta líka upp þeim spurningum hversu mikið vald ríkið eigi að hafa og hversu mikið vald efnahagslífið eða viðskiptalífið eigi að hafa að öðru leyti. Út af fyrir sig er þetta mjög áhugaverð spurning sem er kannski oft tilefni fyrir okkur að ræða um á hinu háa Alþingi. Við þingmenn höfum oft tilhneigingu til þess að kvarta undan því að framkvæmdarvaldið sé að vaða yfir löggjafarvaldið og skilja þingið eftir í einhvers konar tómarúmi. Ég held að það sé líka nauðsynlegt að halda til haga að því hefur verið haldið mjög fram, m.a. af prófessor Gunnari Helga Kristinssyni, að einn höfuðvandi íslenskrar stjórnsýslu sé einmitt veikt framkvæmdarvald. Það skorti á þessar almennu leikreglur fyrir framkvæmdarvaldið til þess að vinna eftir og það sé þess vegna veikleiki í íslenskri stjórnsýslu að framkvæmdarvaldið sé ekki nægilega sterkt.

Ég held, virðulegi forseti, að margt sé til í þessu hjá prófessornum. Það hefur verið þannig í lengri tíma að skort hefur á ákveðnar leikreglur og jafnvel þó að ég sé ekki að mæla með því að framkvæmdarvaldið sé að vaða yfir löggjafarvaldið er það auðvitað þannig að framkvæmdarvaldið þarf að vera mjög virkt og það þarf að geta stuðst við skýrar leikreglur til að vinna eftir.

Auðvitað má velta því endalaust fyrir sér hvað það er í pólitískum ákvörðunum í þjóðfélagi okkar sem eigi að fara með inn á vettvang Alþingis og taka ákvarðanir um. En ég held nú, virðulegi forseti, að það sé ótrúlega langt til seilst að láta sér detta í hug að það eigi að vera á verksviði Alþingis hverju sinni að taka ákvörðun um hina landfræðilegu staðsetningu ríkisstofnana þegar þeim er komið á laggirnar. Ég held, virðulegi forseti, að þessir hlutir í ljósi þeirra miklu breytinga sem eru að verða í þjóðfélagi okkar, möguleikum á öllum fjarskiptum, samskiptum af því taginu og þeim miklu breytingum sem eru að verða á samskiptaháttum okkar að öllu öðru leyti, enn fremur þeim gríðarlegu breytingum og framförum sem hafa orðið í samgöngum okkar og möguleikum okkar til þess að nýta þjónustu víða um landið sé það náttúrlega afkáralegt, svo ekki sé nú meira sagt, að þá eigi í hvert einasta skipti sem breyta þarf um heimilisfang ríkisstofnana að koma með þá ákvörðun inn á hið háa Alþingi.

Ef menn taka þetta mjög bókstaflega og ganga út frá því sem manni virðist vera niðurstaða Hæstaréttar, og þá niðurstöðu ber auðvitað að virða, að þá sé það þannig að ef tekin er ákvörðun um að ríkisstofnun sé ekki staðsett í Reykjavík heldur t.d. í Kópavogi eða Mosfellsbæ --- það getur náttúrlega verið á Kjalarnesi vegna þess að það er orðið hluti af Reykjavík --- að þá sé það tilefni til þess að slík ákvörðun sé flutt inn á hið háa Alþingi og við tökum um það sérstaka pólitíska ákvörðun hvorum megin Kópavogslækjarins einstakar ríkisstofnanir séu staðsettar. Auðvitað á þetta ekki að vera þannig.

Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að ekki er langt síðan tekin var um það ákvörðun án þess að það kæmi inn á Alþingi, að færa ríkisstofnun frá Kópavogi til Reykjavíkur. Tekin var ákvörðun um að finna ríkislögreglustjóra húsnæði í Reykjavík fremur en í Kópavogi og fyrir því voru færð praktísk rök. Ég held, virðulegi forseti, að allt of mikið sé gert úr því að verið sé að færa óeðlileg völd frá Alþingi til ráðherra þó að sett sé í lög sem hér er gert ráð fyrir, að það sé ráðherra sem kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir nema á annan veg sé mælt fyrir í lögum.

Í raun og veru hefur umræðan þróast með allt öðrum hætti og að sumu leyti er það bara kostur. Það hefur komið fram að hv. þingmenn, eins og t.d. hv. þm. Mörður Árnason, reyndu að klæða mál sitt í ákveðinn búning, þann búning að hann væri að fjalla um þetta stjórnskipulega, spurninguna um hvernig svona hlutir í ákvörðunum ættu að falla að þrígreiningu ríkisvaldsins. En í raun og veru var hv. þm. fyrst og fremst að færa fyrir því rök að ríkisstofnanir ættu að vera í Reykjavík. Enda sagði hv. þm. það í andsvari áðan að það væri skoðun sín að ríkisstofnanir, sem hann kallaði ,,hreinar ríkisstofnanir``, þ.e. væntanlega stofnanir sem séu þá bara í eigu ríkisins en ekki stofnanir sem gætu verið sameiginleg stofnun ríkis og sveitarfélaga eða fyrirtæki í eigu ríkis og einhverra einstaklinga, þ.e. hreinar ríkisstofnanir ættu að vera í Reykjavík.

Auðvitað getum við deilt mjög um þetta og hv. þm. kallaði sérstaklega til vitnis vini sína norðan úr Þingeyjarsýslu sem höfðu lýst því yfir að Reykjavík væri kýli á þjóðarlíkamanum. Nú veit ég út af fyrir sig ekki hverjir það eru sem hv. þm. umgengst og tala með þessum hætti en við vitum auðvitað að ein andstaða, það vitum við sem þekkjum hin gömlu marxísku fræði, hv. þm., kallar á aðra. Þó að við séum örugglega hvorugur þeirrar skoðunar, a.m.k. ekki lengur, að það sé barátta andstöðunnar sem drífur þjóðfélag áfram þá vitum við það að ein andstaða kallar stundum kallar á aðra, einar öfgarnar sem kalla á aðrar. Mér fannst hv. þm. eiginlega hafa kosið að bregðast við með mjög sérstökum hætti þannig að hann var eins konar talsmaður, að mínu mati, öfga á hinn veginn með því hvernig hann talaði mjög gegn því að starfsemi sem heyrði undir hið opinbera væri staðsett í stofnunum nema þá hér á höfuðborgarsvæðinu.

Mér finnst líka gæta ákveðins tvískinnungs hjá hv. þingmönnum, bæði hv. þm. Merði Árnasyni og hv. 13. þm. Reykjavíkur þegar verið er að tala um að það sé allt annað mál þegar verið sé að flytja verkefni einstakra stofnana út á land. Þá horfir þetta mál einhvern veginn allt öðruvísi við. Hv. þingmenn töluðu mjög mikið um að flutningur ríkisstofnana hefði í för með sér röskun, flutningur ríkisstofnana gerði það að verkum að þjónustan væri svo dreifð að það yrði erfitt fyrir fólk að nýta sér hana og þar fram eftir götunum. En auðvitað er með því að flytja verkefni út á land verið að flytja hluta stofnunar út á landi. Auðvitað hefur það líka röskun í för með sér. Eru þá hv. þingmenn að leggja til að slíkar ákvarðanir eigi líka að bera undir Alþingi?

Við getum hugsað okkur að sú staða komi upp að það sé tekin um það ákvörðun að flytja 99,9% af einhverri stofnun frá Reykjavík og út á land, færa starfsemi hennar að því leytinu út á land, en heimilisfestin og kannski einhverjir örfáir starfsmenn verði eftir í Reykjavík. Ber þá að flytja slíkt mál inn á Alþingi? Hvað telja hv. þingmenn, sem eru að tala fyrir því að færa einstök verkefni ríkisstofnana út á land en ekki heilu stofnanirnar, að megi ganga langt í þessum efnum?

Það gerðist t.d. fyrir ekki löngu að stjórn Byggðastofnunar ákvað að flytja þróunarsvið stofnunarinnar norður á Sauðárkrók sem hefur reyndar tekist ákaflega vel. Þá risu upp menn og sögðu að þetta væri líka brot á stjórnarskránni, þetta væri líka í ósamræmi við leikreglurnar. Þetta er ákvörðun sem verður að taka með allt öðrum hætti. Eru hv. þingmenn nokkuð að tala fyrir því að flutningur einstakra verkefna af þessu tagi þurfi líka að koma inn til Alþingis til ákvörðunar?

Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að menn séu hér á einhvern hátt að búa þetta mál í mjög sérkennilegan búning. Mér finnst það líka mjög undarlegt þegar ákvarðanir ráðherra og vald ráðherra eru sífellt kallaðar geðþóttaákvarðanir og geðþóttavald. Nú vitum við að valdi ráðherra er skipað með lögum og þær ákvarðanir sem hæstv. ráðherrar taka byggjast á þeim lagalegu heimildum sem þeim eru veittar af Alþingi. Mér finnst koma fram fordómafull afstaða í því að kalla það þegar ráðherrar taka ákvarðanir, byggt á geðþótta og að vald þeirra sé byggt á einhverjum geðþótta. Þetta finnst mér lýsa undarlegri afstöðu til þess verkefnis sem ráðherrar hafa og þeirra leikreglna sem Alþingi hefur sett ráðuneytunum og ráðherrunum í landinu.

Virðulegi forseti. Það er kannski eitt í viðbót sem ég held að sé rétt að menn velti þá aðeins fyrir sér og það er að hér voru flutt mikil rök fyrir því að það væri ótvíræður kostur að geta sótt allt á einn stað og sú hugmynd að hinar hreinu ríkisstofnanir ættu að vera á einum stað, á höfuðborgarsvæðinu. Þá finnst mér ef menn vilja vera sjálfum sér algjörlega samkvæmir að þeir eigi ekki að láta við svo búið standa. Menn eigi þá bara einfaldlega að koma og segja að það hafi verið mistök að flytja Skógræktina, Veiðistjóraembættið, Landmælingarnar og part af Íbúðalánasjóði norður á Sauðárkrók, og hvetja til að snúið sé til baka. Ég kalla eftir þeirri afstöðu hv. þingmanna sem hafa verið svona harðir talsmenn þessa sjónarmiðs, sem ég er hér að gagnrýna, að þeir skýri mál sitt gagnvart því hvort ekki sé þá eðlilegt að taka til baka þær ákvarðanir sem búið er taka varðandi flutning þeirra stofnana sem ég var að telja upp.

Að lokum eitt, virðulegi forseti. Fyrir tveimur, þremur árum var ég einn flutningsmanna að þáltill. sem kvað á um þá stefnumótun að eftir föngum skyldu nýjar ríkisstofnanir verða staðsettar á landsbyggðinni. Mér er mjög minnisstætt vegna þess að hér hefur verið lesið mikið upp úr umsögnum BHM og BSRB að það kom einmitt mjög undarleg umsögn frá BHM um það mál. Sú umsögn var á þessa sömu leið að það væri til mikils óhagræðis og það væri skelfilegt gagnvart starfsmönnum að láta sér detta í hug að staðsetja starfsemi nýrra stofnana úti á landi. Þá fer nú, virðulegi forseti, svolítið að sneiðast um ef það er orðið sjónarmiðið að ekki megi heldur setja nýjar stofnanir niður úti á landi ef það fara að vakna spurningar um hve langt menn megi ganga í þeim efnum að flytja verkefni út á land á grundvelli einstakra stofnana og ég tala nú ekki um þá ósvinnu að láta sér detta í hug að ráðherra skuli hafa heimild til þess að taka ákvarðanir um hvar ríkisstofnanir séu staðsettar.

Ráðherrum er ætlað mikið vald og forstjórum og yfirmönnum stofnana er ætlað heilmikið vald. Þeir hafa vald til þess að taka mjög miklar ákvarðanir á hverjum einasta degi sem snerta hagsmuni bæði viðskiptavina stofnunarinnar og hagsmuni og aðstæður starfsmannanna. Þess vegna er alveg fráleitt þegar því er haldið fram að þetta sé umræða sem snúist um þingræðið í landinu þegar lagt er fram frv. sem felur í sér að ráðherra geti kveðið á um aðsetur stofnana sem undir hann heyra.

Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, að þetta sé skynsamlegt og gott frv. og að verið sé að bregðast við aðstæðum í landinu sem eru til staðar, möguleikum sem við höfum núna sem gera það að verkum að stofnanir þurfi að vera og eigi að geta verið mun hreyfanlegri en áður hefur verið. Þess vegna held ég, virðulegi forseti, að það standi öll rök til þess að við samþykkjum þetta frv.