Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:43:47 (1342)

1999-11-12 11:43:47# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:43]

Mörður Árnason (andsvar):

Herra forseti. Mjög stuttlega. Ég tel að hv. þm. sem hér talaði áðan hafi misskilið grunntextann í bók Gunnars Helga Kristinssonar. Þar var ekki verið að tala um veikt framkvæmdarvald, þar var verið að tala um veikt embættisverk, einmitt vegna þess að stjórnmálamennirnir í framkvæmdarvaldinu hafi ekki leyft embættismönnunum að búa til það fasta regluverk sem á að vera mótpóllinn í þessu lýðræðislega samspili.

Í öðru lagi þetta: Já, það er skoðun mín að hreinar ríkisstofnanir eigi að vera á Reykjavíkursvæðinu. Þá er ég ekki að tala um hreinar í merkingunni eignaraðild heldur hreinar að því leyti að þær komi mjög nálægt ráðuneytunum. Síðan þurfum við að ákveða hvað fer út og hvar annað hentar. Ég tók enga grundvallarafstöðu gegn því og tel að sumt hafi heppnast vel sem fór út.

Meginspurningin er hins vegar þessi þegar hv. þm. er að velta fyrir sér valdi ráðherra og vill hafa það sem mest: Er það þannig, herra forseti, að hv. þm. telji að t.d. flutningur Íbúðalánasjóðs á Sauðárkrók eða Skógræktarinnar til Egilsstaða, hvort sem menn eru með þeim eða á móti, hafi verið stjórnsýsluleg ákvörðun sem ráðherra gat tekið einn og sjálfur eða var það pólitísk ákvörðun sem þurfti vilja þingsins?