Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:45:11 (1343)

1999-11-12 11:45:11# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:45]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég var að reyna að færa rök fyrir áðan þá er það mín skoðun að það eigi að vera á valdi ráðherra að taka ákvörðun um staðsetningu ríkisstofnana af þessu taginu. Ég tel það alls ekki óeðlilegt í ljósi þeirrar skiptingar á valdmörkum sem við kjósum að sé á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Það er ekki rétt hjá hv. þm. að ráðherrarnir komi ekki að því á einhvern hátt hvernig skipa eigi framkvæmdarvaldinu og hvernig eigi að tryggja að framkvæmdarvaldið sé skilvirkt. Ráðherrarnir hafa að sjálfsögðu þá stjórnskipulegu stöðu. Ef við viljum hafa skýr valdmörk og ákveðið vald hjá ráðuneytum, þá hljóta ráðherrarnir, það gefur augaleið, að koma að því máli.