Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:48:06 (1346)

1999-11-12 11:48:06# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:48]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég færði alveg fullkomin rök fyrir því hvers vegna ég tel að ráðherra ætti að hafa þetta vald með höndum og ég get ekki farið að endurtaka það á þessari tæpu mínútu sem ég hef til ráðstöfunar nú. Ég gerði það með allmörgum orðum áðan þar sem ég reyndi að sýna fram á að m.a. vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu væru fullkomin rök fyrir því einmitt að ráðherrar gætu brugðist við og tekið ákvarðanir um staðsetningu ríkisfyrirtækja.

Ég vakti hins vegar athygli á því í máli mínu áðan að þó að umræðan ætti að snúast eingöngu um þá spurningu hver ætti að taka þessa ákvörðun samkvæmt orðanna hljóðan í frv., þá hefði umræðan á hinu háa Alþingi þróast til þeirrar spurningar hvort æskilegt væri að ríkisfyrirtæki væru á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu eingöngu. Ég var einmitt að vekja athygli á því að umræðan, þessi stóra grundvallarspurning, hefði verið klædd í raun í einhvern dularbúning vegna þess að menn voru þrátt fyrir allt alltaf að reyna að færa rök fyrir því að það væri óæskilegt og slæmt fyrir þjóðfélagið að staðsetja ríkisstofnanir annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu.