Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:50:43 (1348)

1999-11-12 11:50:43# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:50]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. skaut sér undan því að fjalla um það sem ég nefndi áðan, þ.e.: Hvenær á þá að kalla Alþingi til? Hv. þm. segir að það eigi að gera í hvert skipti sem ákvörðun er tekin um hvar eigi að staðsetja ríkisstofnanir. En ef ákvörðun er tekin um það, virðulegi forseti, að staðsetja svo og svo mikinn hluta af verkefnum ríkisstofnunar utan höfuðborgarsvæðisins eða einhvers staðar, á þá líka að kalla Alþingi til? Á Alþingi að koma hvenær sem er að umræðunni um það hvernig eigi að skipuleggja innra starf stofnunar? Ég held að hv. þm. verði aðeins að gera sér grein fyrir því hvernig þessi starfsemi fer fram í landinu og þess vegna er auðvitað alveg fráleitt að reyna að setja þetta í þann búning að þetta sé einhver spurning um þingræði og möguleika Alþingis til þess að hafa áhrif á starfsemi ráðherra eða kalla ráðherra til pólitískrar ábyrgðar þó þessi breyting sé gerð á lögunum. Auðvitað er þingið fullmektugt til þess að kalla ráðherra til ábyrgðar. Ráðherrarnir sitja hér. Þeir sitja hér fyrir svörum og þeir sitja á ábyrgð þingsins og það er auðveldlega hægt að kalla ráðherra til og kalla þá til umræðu og það er það sem menn hafa verið að gera.