Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:53:07 (1350)

1999-11-12 11:53:07# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:53]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi umræða beri þess ekki merki að ég sé hræddur við að taka þátt í henni. Það sem ég hef einfaldlega verið að segja er að ég tel að þetta sé ákvörðun af því taginu að það sé mjög eðlilegt að ráðherrar beri á henni pólitíska ábyrgð, beri á því ábyrgð og taki þessa ákvörðun. (Gripið fram í: Pólitíska ábyrgð ...?) (Gripið fram í.) Það sem ég er einfaldlega að segja, virðulegi forseti, er að ég tel mjög óeðlilegt að kveðið sé á um það í lögum, þ.e. að í hvert skipti sem lög eru samþykkt um tiltekna ríkisstofnun, þá sé kveðið á um sveitarfesti viðkomandi stofnunar. (Gripið fram í.) Ég tel þetta fráleitt, virðulegi forseti, og alls ekki í samræmi við þá þróun og þær breytingar sem eru að verða í þjóðfélaginu í kringum okkur.

Ég veit að hv. þm. er stundum hræddur við breytingar og kallar þær ýmsum nöfnum. En hv. þm. verður einfaldlega að standa frammi fyrir því að svona er þetta að gerast og möguleikarnir til að staðsetja ríkisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins án þess að það hafi alvarlega röskun í för með sér og án þess að það hafi í för með sér óhagræði fyrir þjóðfélagið, eru miklu meiri en þeir voru og því verður að laga lagasetninguna í landinu að þeim veruleika.