Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:54:19 (1351)

1999-11-12 11:54:19# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:54]

Árni Gunnarsson:

Hæstv. forseti. Tilefni þessa frv. sem við ræðum hérna er mjög skýrt. Það er í raun og veru þær afleiðingar sem dómur Hæstaréttar um staðsetningu á ríkisstofnunum hafði í för með sér. Ég tel að 1. gr. frv. sé bæði skynsamleg og góð, að ráðherra kveði á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir nema á annan veg sé mælt í lögum. (ÖJ: Sérstaklega ráðherra Framsfl.) Alveg sama hvaða ráðherrar það eru, hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Ég vil draga fram það sem mér finnst vera kjarni málsins vegna þess að menn hafa verið að tala um að málið snúist kannski fyrst og fremst um skiptingu valds á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Ég bið hv. þingheim að hugleiða hvaða breytingar hafa orðið á þjóðfélaginu frá því að við fengum stjórnarskrána frá Danmörku og hvort menn halda virkilega að það hafi verið hugsun manna sem tóku við þeirri stjórnarskrá að öll sú stjórnsýsla sem fara á fram á vegum ríkisins yrði sjálfvirkt staðsett á Reykjavíkursvæðinu. Við horfum upp á þetta við samþykkt fjárlaga þegar verið er að bæta við verkefnum hjá ríkinu að þau koma sjálfvirkt inn í eitt sveitarfélag landsins, sem er Reykjavík.

Þannig gerist það þegjandi og hljóðalaust að ríkiskerfið þenst út í sveitarfélaginu Reykjavík. En ef eitthvað á að gera utan Reykjavíkur eða úti á landsbyggðinni þá kostar það alltaf verulegar umræður og veruleg átök. Ég vil nefna sem dæmi í því sambandi að ákvörðun hefur verið tekin um að flytja fimm menn frá loftskeytastöðinni á Siglufirði til Reykjavíkur. Loftskeytastöðin á Siglufirði heyrir undir Landssímann og þar með undir samgrh. Þyrfti ekki að leita atbeina og stuðnings Alþingis fyrir því að flytja þessa fimm menn hingað suður þar sem þeim var boðið sambærilegt starf? Þetta fer fram þegjandi og hljóðalaust.

Ég vil líka minna á það, af því að hér var talað um embætti ríkislögreglustjóra, að nú er verið að gera þær breytingar á þessu embætti að það er að verða miðstýrðara. Það á að færa alla lögreglubíla undir embættið og ég spyr: Hvað hefur það í för með sér fyrir viðhald á þessum bílum og fyrir störf manna í bílgreinum úti um landið? Það er aldrei rætt neitt um þetta.

Ég er nefnilega þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að það sé að verulegu leyti stjórnmálamönnum að kenna hvernig komið er í byggðamálum. Við höfum byggt upp rangt kerfi og þetta frv. tekur einmitt á því. Öll sú þjónusta sem hefur byggst upp á vegum ríkisins er staðsett hér og skiptir þá ekki máli hvort sú þjónusta er við allt landið eða jafnvel við atvinnugreinar úti á landi. Í þessu sambandi vil ég nefna sérstaklega svokallaðan eftirlitsiðnað. Ég hvet þá hv. þm. sem hér taka þátt í umræðunni og mæla gegn því að þetta frv. verði samþykkt til þess að fara út um land, tala við fólk og kynna sér viðhorfin.

Við erum með stofnun sem heitir Fiskistofa. Þar vinna á annað hundrað manns við að þjónusta sjávarútveginn hringinn í kringum landið. Það koma menn í bílaleigubílum frá Reykjavík í fiskvinnslufyrirtækin út á land og rukka fyrir það. Kostnaðurinn fellur m.a. til vegna þess að stofnunin er staðsett í Reykjavík. Þetta er dæmi um þjónustu sem ætti að vera nærþjónusta í héraði. Ég nefni Vinnueftirlitið. Ég nefni Löggildingareftirlitið. Ég nefni Brunamálastofnun. Þannig mætti áfram telja. Ætli það séu ekki fleiri þúsund manns sem vinna í þessum ríkisvædda eftirlitsiðnaði sem ætti að sjálfsögðu að vera starfsemi sem færi fram heima í héraði?

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að mér blöskrar nokkuð þegar hv. þm. Mörður Árnason talar um Íbúðalánasjóð og ég sé mig knúinn til að leiðrétta beinar rangfærslur sem hann hafði í frammi í máli sínu áðan. Hann segir að einn maður á bíl aki á hverjum degi með skuldabréf milli Reykjavíkur og Sauðárkróks og hv. þm. segir: ,,Þetta er ekki byggðastefna. Þetta er rugl.`` Ég vil svara því til að þetta er rangt og þar liggur ruglið.

Samningar eru við öflugt flutningafyrirtæki, sem er með vel á annan tug bíla í flutningum og ekur margar ferðir á milli Reykjavíkur og Sauðárkróks á dag, um að flytja þau bréf og pappíra sem þarf að flytja og ekki er hægt að flytja í gegnum símalínur. Ég vil líka segja að sjö til átta manns vinna í deildinni á Sauðárkróki en á sjötta tug manna vinnur hjá Íbúðalánasjóði. Af hverju eru menn alltaf að taka þessa deild út úr og skattyrðast gegn henni? Eru þetta annars flokks starfsmenn af því að þeir eru staðsettir á Sauðárkróki? Hvernig væri nú að kynna sér þessi mál? Það er ekkert launungarmál að það hefur verið þensla á fasteignamarkaði og það hefur verið mikið að gera hjá Íbúðalánasjóði. Aukningin er í kringum 40% það sem af er þessu ári miðað við árið í fyrra. Það hefur komið fyrir að símkerfi stofnunarinnar hefur hrunið. Og þá hefur það verið þessi litla deild á Sauðárkróki sem hefur getað gripið inn í og bjargað. Reynsla okkar sem sitjum í stjórn Íbúðalánasjóðs af starfsemi deildarinnar á Sauðárkróki er mjög góð.

[12:00]

Ég spyr: Er ekki dálítið langt seilst ef menn segja að það hafi þurft að leita atbeina Alþingis um það hvort heimilt væri að flytja sjö, átta manns, eina litla deild til Sauðárkróks? Þetta var ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Einar Guðfinnsson kom inn á í sínu máli, að því miður er því allt of sjaldan haldið til haga hvenær vel hefur tekist til með flutning ríkisstofnana út á land. Hann nefndi dæmið um þróunarsvið Byggðastofnunar. Því var nú ekki spáð góðu gengi. Þróunarsvið Byggðastofnunar hefur verið starfandi á Sauðárkróki um árs skeið. Þangað hefur valist vel menntað og hæft fólk sem sinnt hefur störfum sínum mjög vel. Mér finnst það töluverður sleggjudómur þegar menn segja úr þessum stóli og dæma þar með yfir alla línuna að flutningur stofanana og starfa út á land séu patentlausnir og pólitískar geðþóttaákvarðanir.

Ég bið menn að hugsa aðeins út í hvað það þýðir fyrir hinar dreifðu byggðir, fyrir sjávarþorpin, þorpin úti á landi, þegar stjórnvöld koma inn með þessum hætti. Með því eru vonir fólks vaktar. Það er verið að búa til eða skapa grundvöll fyrir menntuðum störfum og landsbyggðin þarf á því að halda. (ÖJ: Málið snýst ekkert um þetta.) Það snýst víst um þetta, hv. þm. Það snýst nákvæmlega um þetta. Það er tilefni þessa frv.

Ég vil að lokum hvetja menn til þess að ræða um það á hv. Alþingi hvað af starfsemi ríkisins á raunverulega heima hér og hvað á heima sem nærþjónusta í héraði.