Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 12:03:47 (1352)

1999-11-12 12:03:47# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[12:03]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég hef lýst yfir að ég telji að hreinar ríkisstofnanir eigi heima í Reykjavík eða í Reykjavík og nágrenni eins og ég tel rétt að skilja þau orð í stjórnarskránni.

Það er lítið svar við þeim rökum sem ég og fleiri hv. þm. hafa hér fært fram að setja á hefðbundnar harmatölur af landsbyggðinni. Hér var enginn að efast um að ýmsar stofnanir ríkisins gætu vel átt heima úti á landi og mörgum þeirra sem þar eru líði vel. Hins vegar var vakin athygli á því að því samfara getur verið ákveðinn kostnaður. Varðandi Sauðárkrók þá hef ég ekki gagnrýnt að þar séu opinberir starfsmenn menn í vinnu. Hins vegar kemur ruglið fram í því að þar eru efnislegir pappírar geymdir, skuldabréfin á Sauðárkróki, en síðan er unnið með þau hér. Það eru því sífelldir flutningar á milli landshluta og eins og kom fram hjá hv. þm. sérstakt fyrirtæki fengið til þess að annast þá flutninga.

Ég tek eftir því að hv. þm. telur að þetta sé landsbyggðarfrv. sem hæstv. forsrh. er að flytja hér. Sjálfsagt er það svo að einhverju leyti í eðli sínu. Formlega snýst það hins vegar ekkert um það heldur um vald þingsins og vald ráðherranna. Sú staða gæti komið upp að hér yrðu tólf reykvískir ráðherrar, öfgamenn í Reykjavík, sem söfnuðu til sín öllum þeim stofnunum sem nú eru á landsbyggðinni, til Reykjavíkur eða í Kópavog eða á einhvern þann stað sem þeir bera fyrir brjósti. Hvað ætlar hv. þm. að gera þá? Þeir hefðu til þess fullan rétt og gætu gert það á einum degi. Hún yrði komin um kvöldið. Það væri nú ekki mikil vörn í því fyrir landsbyggðina.

Meginmálið hérna er að pólitískar ákvarðanir eins og þessar sem hv. þm. telur mikilvægar á að taka á Alþingi og síðan á að framkvæma þær í Stjórnarráðinu.