Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 12:09:52 (1359)

1999-11-12 12:09:52# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[12:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta hefur verið fróðleg umræða um margt þó það sé ekki alveg hægt að fóta sig fullkomlega á henni. Talsmaður Samfylkingarinnar, hv. 11. þm. Reykv., tók okkur í kennslustund í almennri lögfræði. Hann fjallaði sérstaklega um stjórnskipun og stjórnskipunarrétt sem er auðvitað þakkarefni þó sumir okkar kunni að hafa efast um fræðilegan grundvöll kennslunnar. Þó var þakkarefni að þingmaðurinn tók sig til, meðan hann staldrar hér við, og kenndi okkur hinum hv. þm. undirstöðuatriðin í þessum greinum þannig að við getum farið betur með þetta í störfum okkar hér.

Þess utan afhjúpaði þingmaðurinn forsrh. Hann varpaði fram því leyndarmáli fyrir framan fjöldann að forsrh. hefði flutt hvorki meira né minna en sömu ræðuna um þetta frv. og hann flutti fyrir ári síðan. Reyndar hafði nú forsrh., blessaður karlinn sem hér stendur, tekið fram að frv. væri endurflutt í óbreyttri mynd. En auðvitað átti hann að sjá sóma sinn í því að semja einhverja allt aðra ræðu um óbreytt frv. fremur en að flytja sömu ræðuna um sama frv. óbreytt ári síðar. Það er rétt að ráðherrar hafi þessa leiðbeiningu þingmannsins í huga upp á framtíðina þannig að þeir verði ekki afhjúpaðir svona og standi berstrípaðir eftir í ræðustól, enda ljót sjón ef það verður almennt svo.

Ég þóttist skilja hv. þm. allvel framan af ræðu hans. En eftir því sem liðið hefur á andsvör virðist mér hann hafa hlaupið frá inntaki ræðunnar. Meginstefið og inntak ræðu hans var að túlka niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli þessu svo að þeirri staðreynd sem Hæstiréttur slægi föstu, að ríkisstofnanir og stofnanir sem næst stæðu ráðuneytum, eins og það hefur verið orðað m.a. af hv. þm., ættu að vera í Reykjavík og því yrði ekki breytt að óbreyttri stjórnarskrá. Hv. þm. sagði tvisvar, hygg ég, í fyrstu ræðu sinni að vildu menn ekki hafa þessar stofnanir í Reykjavík þá ættu þeir að breyta stjórnarskránni.

Þetta er út af fyrir sig skoðun sem hv. þm. getur sett fram. Ég tek eftir því í fjarlægð að þingmaðurinn hristi höfuðið og það hefði hann átt að gera meðan hann hélt þessari skoðun fram því að hún er svo vitlaus. Þá hefði maður séð að hann tryði ekki sjálfur því sem hann talaði um. Að vísu má lesa að hluta svipað sjónarmið úr umsögn sem hann vitnaði til, frá BHMR. En ég hef ekki heyrt aðra en þessa tvo túlka dóm Hæstaréttar svo.

Reyndar var hluti af kennslustund hv. þm. að vekja athygli ófróðra hv. þm. á því að dómum Hæstaréttar yrði ekki áfrýjað til forsrh. Þetta er grundvallaratriði sem rétt er að þingmenn hafi í huga og mjög gott að fá þetta upplýst í stuttri viðdvöl þingmannsins hér á þinginu. Ella mundi sjálfsagt þingheimur allur halda að svo væri. En ef til að mynda sá sem hér stendur hefði haldið að dómum Hæstaréttar yrði áfrýjað til forsrh. þá hefði hann ekki flutt þetta frv. Þetta frv. er flutt vegna þess að forsrh. sem aðrir hv. þm. tekur fullt mark á niðurstöðum Hæstaréttar. Hins vegar hlýtur forsrh. sem aðrir borgarar þessa lands að áskilja sér rétt til að hafa á því skoðun hvort rökstuðningur Hæstaréttar, sem mannlegur er, sé trúverðugur eða standist skoðun. Ég mun ekki falla í þann aumingjadóm að taka allan rökstuðninginn gildan þannig að honum megi ekki andmæla eða draga fram önnur rök þó að niðurstaðan sé virt. Engum hefur dottið það í hug í þessum sal --- væntanlega þurfti því ekki til hina yfirlætislegu kennslustund hv. þm. --- að ímynda sér að dómur Hæstaréttar stæðist ekki. Þess vegna er þetta frv. flutt.

[12:15]

Hins vegar kom fram hjá hv. þm., og hann má auðvitað hafa þá skoðun sjálfur, að þetta frv. dygði ekki vegna þess að breyta þyrfti stjórnarskránni til þess að flytja mætti þetta frv. að þessu leyti til. Þarna er hv. þm. hins vegar farinn að rífast við Hæstarétt, sem hann er að fordæma aðra fyrir, vegna þess að í hæstaréttardóminum sjálfum er leiðbeinandi regla um það hvernig á að taka á þessu. Hæstiréttur vísar beinlínis veginn að þeirri lagareglu sem þetta frv. leggur til með þeim orðum sem Hæstiréttur nefnir alveg sérstaklega að almennra lagafyrirmæla um heimildir framkvæmdarvaldsins til að gera slíkar breytingar á staðsetningu ríkisstofnana njóti ekki við. Þær skortir sem sagt og það er úr því sem verið er að bæta með þessu frv. Hv. þm., kennarinn hér, við okkur auðmjúka nemendurna er farinn að rífast við Hæstarétt sjálfan hér úr ræðustólnum, hvorki meira né minna.

Síðan tekur þingmaðurinn sig til og fer að tala um að hann sé eingöngu að fjalla um þær stofnanir sem séu nærtækastar ráðuneytunum. Það sé allt í lagi með einhverjar aðrar stofnanir. Þetta er mjög fróðleg kenning. Er það þá svo að Landmælingar Íslands séu dæmigerð stofnun fyrir þær sem næstar standi ráðuneytum og hljóti þess vegna að vera í Reykjavík? Ef það er svo, hv. þm., þá þyrfti nú að flytja ansi stóran slatta af stofnunum sem hafa verið fluttar út á land með lögum að óbreyttri stjórnarskrá til Reykjavíkur á nýjan leik. Þingmaðurinn ætti að taka saman lista yfir þær stofnanir allar sem þarf að skófla til Reykjavíkur með þessari túlkun, ef Landmælingar Íslands eru svo bersýnilega nákomnar ráðuneytum að slík stofnun þurfi endilega að vera staðsett í Reykjavík.

Þetta er enn eitt dæmi um að við tökum þennan dóm mjög alvarlega. Við erum að tryggja í lögum að þær stofnanir sem voru fluttar ólöglega úr Reykjavík samkvæmt túlkun á dómnum fái nú örugglega lögvarða stöðu. Það er gert með frv. --- að vísu samkvæmt orðum þingmannsins sjálfs þá dugir það ekki til, því meðan við breytum ekki stjórnarskránni þá eigum við að skófla öllum þeim stofnunum sem hér eru nefndar til Reykjavíkur á nýjan leik, ef þingmaðurinn vill láta taka mark á sér.

Hv. þm. kom með nýstárlega kenningu, sem ég hef nú aldrei heyrt fyrr, að ráðherrar megi ekki taka pólitískar ákvarðanir. Þessi kenning hlýtur að komast í heimsmetabók Guinness því að hún hefur hvergi í heiminum verið rædd fyrr en nú, að ráðherrar megi ekki taka pólitískar ákvarðanir. Þingið taki pólitískar ákvarðanir, síðan yrði það bara embættisleg útfærsla. Þingmaðurinn er að mæla með því að við sitjum uppi með eilífar embættismannastjórnir en ekki pólitískar ríkisstjórnir í landinu. Þessi kenning hefur hvergi heyrst og stenst hvergi nokkra minnstu skoðun, meira að segja manna sem eru svo fróðir að geta tekið allan þingheim í stjórnskipulega kennslustund fyrir framan alþjóð.

Hér hefur margoft verið snúið út úr ummælum hæstv. fyrrv. umhv.- og landbrh., Guðmundar Bjarnasonar, og það gert tortryggilegt þegar hann svaraði því til að einhver ákvörðun væri pólitísk ákvörðun. Ég heyrði a.m.k. eitt svar þess ágæta ráðherra þar sem hann notaði þetta orðalag. Og hverju var hann að svara? Hann var að svara spurningum um hvort það væri örugglega víst að ódýrara væri að reka Landmælingar Íslands á Akranesi eða í Reykjavík. Og þá var hann að útskýra að sú ákvörðun snerist ekki um að tryggja eingöngu hagkvæmastan rekstur þeirrar stofnunar. Hérna væri pólitísk lífsskoðun að baki, þetta væri pólitísk ákvörðun um að styrkja grundvöllinn á landsbyggðinni með flutningi á stofnun af þessu tagi. Og það er látið eins og maðurinn hafi verið að segja einhvern stórkostlega óeðlilegan hlut. Hann var að segja fullkomlega sjálfsagðan hlut. Að vísu má deila um það pólitískt en hann var að lýsa pólitískri stefnu sinni og það er ekkert rangt við það nema síður væri.

Síðan segja menn hér aftur og aftur, og fyrir því er náttúrlega ekki fótur, að verið sé að svipta Alþingi valdi með því að ákveða að ráðherra geti flutt stofnanir milli staða samkvæmt þeim lögum sem Alþingi setur eftir því sem hagkvæmt eða pólitískt mat leiðir til. Það er ekkert vald verið að taka frá Alþingi. Alþingi er að ákveða þetta. Þá stund sem Alþingi fellir sig ekki við þá skipan tekur Alþingi þá stöðu í burtu aftur. Það er því ekki verið að færa neitt vald varanlega frá Alþingi. Alþingi getur á hvaða stundu sem það kýs kallað það vald til sín í hverju einstaka falli ef það vill.

Menn kvarta yfir því og segja hér fullum fetum, t.d. hv. 13. þm. Reykv., að engin umræða hafi átt sér stað um Landmælingar Íslands. Þetta er fjarri öllu lagi. Það var hver umræðan á fætur annarri um þetta efni, átti auðvitað að vera um formhliðina en fór líka um efnishlið málsins. Það er hins vegar rétt að ákvörðunin var ráðherrans, ríkisstjórnarinnar sem studdist við álit prófessora við Háskóla Íslands um það efni. Farið var varlega og vandlega yfir það og leitað m.a. skriflegra álita prófessora í lögum við Háskóla Íslands um það efni. Auðvitað fór fram umræða hér en ákvörðunin var að mati ráðherrans studd af lögfræðilegum álitsgerðum prófessora við Háskóla Íslands en umræðan fór hér fram. Það er enginn að taka umræðuna frá mönnum. Ég veit að hv. þm. hefur hugsanlega ekki ætlað að segja þetta en þetta sagði hann slag í slag.

Menn hafa fundið að því hér að þingmenn hafi tekið upp hinn byggðalega þátt málsins, hinn pólitíska byggðalega þátt málsins. Hv. þm. Mörður Árnason gaf fullt tilefni til þess. Hann talaði gegn þeim sjónarmiðum og seildist langt í þeim efnum. Hann talaði beinlínis gegn þeim sjónarmiðum. Þess vegna þýðir ekkert að setja ofan í við þingmenn sem svara þeim þáttum og segja: Þetta er ekki til umræðu. Hv. þm. tók þetta alveg sérstaklega til umræðu, og það segi ég sem 1. þm. Reykv. og fyrrverandi borgarstjóri svo það sé nefnt, að tónn þessa talsmanns Samfylkingarinnar í garð landsbyggðarinnar var afskaplega fjandsamlegur, svo ekki verði meira sagt.

Hér erum við að færa mál í lögformlega réttan og skilvirkan búning. Við erum að gera það í fullu samræmi við stjórnskipun landsins, í fullu samræmi við dóm Hæstaréttar og reyndar förum eftir þeirri leiðbeiningarreglu um það efni sem sá dómur veitir sérstaklega.